Maybach selst best í Moskvu

http://www.fib.is/myndir/Maybachluxus.jpg
Maybach - vinsæll meðal ofurríkra Moskvubúa.

Mercedes Benz er í flestra hugum það bílmerki sem tengist mest og best gæðum og lúxus, ekki síst S-línan sem er bíll þjóðhöfðingja og milljónamæringa. En Mercedes er með eina bílalínu sem er langt ofan við S-Benzann og er þar með dýrasti fólksbíll heims – Maybach.

Jafn dýr bíll og Maybach er ekki farartæki sem selst í stórum kippum um allan heim. Enginn einasti Maybach er skráður á Íslandi og í Evrópu er hann afar sjaldgæfur, enda má fremur telja ársframleiðsluna í tugum en hundruðum eintaka. Frá því að Maybach í núverandi mynd var fyrst frumsýndur í Frankfurt árið 2001 hefur eftirspurnin verið miklu minni en reiknað var með upphaflega og hafa því engar nýjar gerðir verið þróaðar síðan. Helst hafa það verið auðugir Bandaríkjamenn sem hafa fengið sér Maybach en í seinni tíð vellauðugir Rússar. Nú er svo komið að í Moskvuborg eru svo margir Maybach bílar að hvergi annarsstaðar eru þeir fleiri í einu og sama sveitarfélaginu.http://www.fib.is/myndir/Maybach.jpg

Í seinni tíð hefur talsverður fjöldi ungs fólks í Rússlandi, einkanlega Moskvuborg, auðgast gríðarlega á alls kyns viðskiptum og þessi hópur er ekkert feiminn við að sýna ríkidæmi sitt með því að fá sér mjög dýra bíla. Meðal vinsælustu bílanna hjá þessum neytendahópi eru Mercedes Benz S lúxusbílar. Í Moskvu seljast árlega um fjögur þúsund S-Benzar á ári og um það bil tíundi hver bíll er brynvarinn. Þetta kemur fram í Welt Online.

En þeir allra ríkustu meðal hinna ríku Moskvubúa láta sér ekki duga S-Benz heldur skal það vera Maybach. Í Moskvu er nú lang stærsti markaðurinn fyrir Maybach bíla. Í Moskvu kostar nýr Maybach á bilinu 18-25 milljónir rúblna sem er ígildi 48-66 milljóna ísl. kr. Sölustjóri Maybach I Moskvu segir við Welt Online að flestir kaupenda kjósi að staðgreiða bíla sína. Þess vegna hafi sá kostur verði tekinn að opna banka í sýningarsal umboðsins til að kaupendurnir þurfi ekki að vera að burðast með rúblur í sekkjavís heldur geti gengið frá kaupum á skjótan hátt með millifærslum.