Nú er það Obvio „þrennbíll“
22.12.2005
Obvio - umhverfismilt þriggja manna tryllitæki - þrjú kíló á hvert hestafl.
Toyota Prius hefur verið nefndur tvinnbíll upp á íslensku því í honum tvinnast saman tvennskonar vélar sem knýja hann áfram. En nú er verið að kynna bíl í Bandaríkjunum sem knúinn er þrennskonar orku; etanóli, bensíni og rafmagni – sá fyrsti sem um getur. Ættum við því ekki að kalla þetta „þrennbíl?“
Bíllinn er byggður í Brasilíu af þarlendu fyrirtæki; Obvio, sem hefur fengið til liðs stöndugt hátæknifyrirtæki í Kaliforníu sem nefnist ZAP. I samvinnu þeirra er kominn fram á sjónarsviðið þriggja sæta borgarbíll sem komist getur allt að 100 kílómetra á einum lítra af bensíni eða bensín-etanólblöndu. Ekki þarf að blanda bensíni og etanóli í nákvæmum hlutföllum því að tölva sér um að stilla vélina að því eldsneyti sem í tanknum er.
Satt að segja er þessi bíll allrar athygli verður. Þótt hann falli ágætlega undir skilgreininguna umhverfisvænn eða umhverfismildur bíll þá er hann fjarri því að vera á nokkurn hátt byggður samkvæmt einhverskonar umhverfispólitískri rétthyggju því þeir sem hafa ekið bílnum segja hann bæði eldsnöggan og með ágæta aksturseiginleika.
Obvio er byggður í tveimur megingerðum sem heita 012 og 828. báðir eru þriggja sæta og eru sætin hlið við hlið. Meginvélin er fjögurra strokka 1,6 l vél sem gengur jafnt á bensíni sem bensín-Etanólblöntu til amk. helminga. Þessi vél er í staðalútgáfu 115 hö en hægt er að fá hana uppfærða í allt að 250 hö. Með þessari vél er stór rafmótor sem bæði gangsetur bensín-/spíravélina og knýr bílinn áfram ýmist einn eða ásamt strokkavélinni, alveg eins og gerist í Toyota Prius.
Eigin þyngd bílanna er 750-800 kíló þannig að í 250 hestafla útgáfunni er þarna kominn trúlega aflmesti umhverfismildi bíll sögunnar. Léttleikinn er fólginn í því að bíllinn er byggður úr heilli burðargrind sem klædd er koltrefjaplötum. Hann er sagður ver mjög sterkur og verja þá sem í honum eru á við öruggustu fimm stjörnu bíla
Obvio 828 er að koma á markað í Bandaríkjunum á þann að hátt að hægt er að panta bílinn núna og fá hann svo afhentan í júlímánuði. Verðið er um 14 000 dollarar. Bíllinn fæst ýmist með stiglausri CVT-skiptingu eð með sex gíra gírkassa með rafskiptingu.
Obvio 828
Obvio 012