Ný gerð Mitsubishi L200 pallbíls væntanleg
21.12.2005
Nýr Mitsubishi L200 pallbíll er á leiðinni og mun umboðsaðilinn, Hekla hf kynna bílinn á fyrri hluta nýja ársins. FÍB blaðið hefur reynsluekið bílnum og verður greint frá því í FÍB blaðinu sem kemur út í janúarlok.
Nýi Mitsubishi pallbíllinn er mikið breyttur frá fyrri gerð. Í útliti eru ávalar línur ríkjandi í stað hvassra áður. Þá er vélin ný, bæði öflugri en áður en jafnframt sparneytnari og gangþýðari. Vélin er 2,5 lítra dísilvél og fjórhjóladrifið er ekki lengur hefðbundið 4x4 með vali milli afturhjóladrifs eða læsts fjórhjóladrifs. Nú er hægt auk afturhjóladrifsins eins að aka í sítengdu aldrifi eins og venjulegum jepplingi og loks í hefðbundnu læstu fjórhjóladrifi, bæði háu og lágu. Þetta er samskonar búnaður og er í Pajero jeppanum.
Nýi pallbíllinn er mjög mikilvægur fyrir Mitsubishi. sem dæmi um það eru pallbílarnir mesta söluvara Mitsubishi í Bretlandi og mjög mikilvægir í ö-ðrum Evrópulöndum sömuleiðis. Í Bretlandi hefur salan vaxið mjög og sem dæmi um það seldust tvö þúsund Mitsubishi pallbílar þar í landi fyrir fimm árum en 12 þúsund í ár. Það eru 30% allra seldra pallbíla í Bretlandi.
Mitsubishi L200 hafa einnig verið í góðu áliti hér á landi og þótt þægilegir og traustir. Óhætt er að segja að nýja gerðin er mun þægilegri og skemmtilegri í akstri en eldri gerðin, ekki síst vegna þess að hann er rýmri, hljóðlátari og mýkri en áður.
Nýi L200 pallbíllinn fæst bæði með fjögurra dyra yfirbyggingu og tveggja. Sá með lengri yfirbyggingunni er örlitlu lengri í heild en sá með styttra húsinu og þýðir það mýkri aksturseiginleika að því er fram kom í reynsluakstri FÍB blaðsins. Innréttingar eru smekklegar og ámóta og í vönduðum jeppum. Fáanlegur verður allskonar íburður í innréttingum eins og leðurinnrétting. Útvarp og góð hljómtæki með geislaspilara og inntaki fyrir MP og iPOD spilara voru í reynsluakstursbílunum og gert var ráð fyrir GSP leiðsöugbúnaði þótt ekki væri hann til staðar þarna suður á Sardiníu þar sem reynsluaksturinn átti sér stað.