Óhæfir ökumenn í umferðinni
14.11.2005
Afleiðingar umferðarslysa eru oft hræðilegar.
Óhæfir ökumenn eru í umferðinni og skapa sjálfum sér og öðrum vegfarendum raunverulega hættu. Þetta kemur fram í grein Kristínar Sigurðardóttur og Hjalta Más Björnssonar í 11. tbl. Læknablaðsins.
Kristín og Hjalti Már lögðu um síðustu áramót spurningalista fyrir alls 47 lækna á Landspítalanum í því skyni að gera sér grein fyrir því hvort og í hve miklum mæli mætti reikna með því að úti í umferðinni væru ökumenn sem háskalegir væru sjálfum sér og öðrum af einhverjum sökum. „Könnun okkar er ekki vísindarannsókn á umfangi vandans hér á landi, en staðfestir að mati okkar að hér sé um raunverulegt vandamál að ræða í íslensku samfélagi.“ segja þau Kristín og Hjalti Már í greininni.
Læknarnir sem fengu spurningalistann störfuðu á slysa- og bráðadeild, taugalækningadeild, hjartalækningadeild og öldrunardeild, það er að segja læknar sem líklegir voru til að sinna sjúklingum sem verða óökuhæfir af völdum sjúkdóma eða annarlegs ástands. 64 prósent læknanna sögðust hafa orðið þess varir að sjúklingar hafi haldið áfram akstri gegn ráðleggingum læknis. Í 52 tilvikum vissu læknarnir til þess að sjúklingur hefði á síðasta ári valdið skaða eftir að hafa ekið bíl án þess að vera líkamlega hæfur til þess. Algengast var að einstaklingar með flogaveiki og heilabilun höfðu ekki hlýtt fyrirmælum læknis um að hætta akstri, en meðal annarra þátta sem nefndir voru var misnotkun lyfja og áfengis, óskýrð yfirlið, sykursýki, kæfisvefn og sjónskerðing.
Í greininni er sagt frá ungum manni sem missti meðvitund og var fluttur á sjúkrahús. Þar upplýstist að hann hafði endurtekið misst meðvitund á undanliðnum vikum. Ekki fékkst þá þegar fullnægjandi skýring á ástæðum þess að maðurinn missti endurtekið meðvitund en lagt upp til frekari rannsókna. Brýnt var fyrir honum að hann mætti ekki aka bíl vegna þessa og hann síðan útskrifaður að sinni. Nokkrum vikum síðar var komið með þennan sama mann á bráðamóttöku með alvarlega áverka eftir að hafa misst meðvitund undir stýri og valdið árekstri. Í endurkomu eftir slysið ítrekaði læknir við manninn að hann væri ekki ökuhæfur. Því mótmælti hann og benti lækninum á að hann væri handhafi gilds ökuskírteinis.
Í greininni vitna höfundar m.a. í umferðarlög og þau úrræði sem samkvæmt þeim má beita og sem læknar og aðrir geta gripið til svo fólk með skerta ökuhæfni komist ekki út í umferðina. Þau benda á að í 53. grein umferðarlaga sé að finna heimild fyrir lögreglustjóra til þess að afturkalla ökuréttindi ef hlutaðeigandi fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast ökuskírteini. „Ef ekki er hægt að tryggja öryggi vegfarenda með öðrum og mildari leiðum teljum við nauðsynlegt að því úrræði verði beitt oftar. Líf okkar allra og heilsa í umferðinni er í húfi,“ segja greinarhöfundar.