Panda heim til Ítalíu

Framleiðslan á Fiat Panda, einum vinsælasta smábíl í Evrópu hefur nú verið flutt heim til Ítalíu eftir átta ára útivist í Póllandi. Hin nýja kynslóð bílsins og sú þriðja, verður framvegis byggð í Napólí í verksmiðju sem á árum áður framleiddi Alfa Romeo bíla sem nefndust Alfasud.

http://www.fib.is/myndir/Fiat-Panda-hl2012.jpg
Fiat Panda árgerð 2012.
http://www.fib.is/myndir/FiatPanda2012-aft.jpg
Fiat Panda árgerð 2007.

Segja má að það skipti ekki sköpum um gæði og vöruvöndun hvar bílar eru framleiddir heldur hvernig gæðaeftirlit er á öllum stigum framleiðslunnar, hvað svo sem líði sögusögnum um hið gagnstæða. En ekki er hægt að líta framhjá því að Fiat bílar sem framleiddir hafa verið í Póllandi undanfarinn áratug eða svo – bílar eins og annarrar kynslóðar Pandan og hinn nýi Fiat 500, hafa reynst vel byggðir og endingargóðir.

Hjá Fiat á Ítalíu er mikið úr því gert að loks sé Pandan „komin heim.“ Búið er að gera gömlu Alfasud verksmiðjuna í Napólí á S. Ítalíu upp og innrétta í hana nýjustu tæki og tól og nýjar Pöndur eru byrjaðar að streyma af færiböndunum. Framleiðslan er í fullum gangi allan sólarhringinn og afköstin eru 1.050 bílar á sólarhring.

Gamla Alfasud bílaverksmiðjan í Napólí var reist á sjöunda áratuginum sem hluti mikils opinbers átaks í atvinnusköpun á S. Ítalíu. Alfasud bíllinn var sérstaklega hannaður og þótti mikill afbragðs akstursbíll en mjög skorti á það að vandað væri til verka við smíði hans. Bílarnir reyndust bæði bilanagjarnir og gríðarlega ryðsæknir og af þeim fjölmörgu Alfasud bílum sem til Íslands komu, er að því best er vitað, enginn einasti eftir.

Fiat verksmiðjan í Póllandi verður þó alls ekki verkefnalaus þótt nýja Pandan fari til Ítalíu. Þar er Fiat 500 framleiddur og einnig systurbílarnir Lancia Ypsilon og Ford Ka, sem í grunninn eru allir sami bíllinn. Eftir þessum bílum er mikil eftirspurn í Evrópu og verksmiðjan því rekin á fullum afköstum.