Rafmagnstaxi í Odense
Fyrsti rafknúni leigubíllinn í Danmörku og hugsanlega á Norðurlöndum hefur verið tekinn í notkun í Odense á Fjóni. Fram að jólum er verið að kynna bílinn og prófa hann og hraðhleðslubúnað hans og gefst fólki kostur að fá að sitja í honum smáspotta ókeypis. En frá og með áramótum verður bíllinn í fullum rekstri sem leigubíll. Þessi fyrsti raf-leigubíll er af gerðinni Nissan Leaf.
Rafmagnsleigubíllinn fær fastan samastað við Vesterport í miðbæ Odense en þar er hraðhleðslustöð fyrir hann og aðra rafbíla staðsett. Í frétt á fréttavef FDM í Danmörku er hraðhleðslustöð sögð forsenda þess að hægt sé að reka rafbíl sem leigubíl, en leigubílar í Danmörku þurfa að vera tiltækir mestallan sólarhringinn. Þeir eru nefnilega reknir allan sólarhringinn á vöktum þannig að ef rafbíll ætti að vera meira og minna frá hátt í hálfan sólarhringinn og í hleðslu, væri rekstur hans sem leigubíls einfaldlega botnlaus.
Það er rafbílaútgerðarfyrirtæki sem heitir Choosev sem setur upp hraðhleðslustöðina í Odense. Áður hefur Choosev sett upp hraðhleðslustöðvar í Kaupmannahöfn og Høje Taastrup sem er smábær milli Kaupmannahafnar og Roskilde. Á hvorugum staðnum hefur þó enn verið boðið upp á rafknúna leigubíla ennþá.