Svíar einkavæða bifreiðaskoðunina
Sænska bifreiðaeftirlitið eða Svensk Bilprovning er nú til sölu að tveimur þriðju hlutum. Sjórnarformaður stofnunarinnar segir við sænska fjölmiðla að hluturinn verði seldur hæstbjóðanda og sölunni eigi að verða að fullu lokið áður en árið 2012 verður á enda runnið.
Einkaleyfi sænska bifreiðaeftirlitsins til þess að öryggisskoða bíla var afnumið 2010. Í kjölfarið voru stofnuð nokkur fyrirtæki og samkeppni hófst um skoðun bíla. Til að styðja frekar við samkeppni í greininni var svo Svensk Bilprovning skipt upp í þrjá hluta sem hver um sig starfar sjálfstætt hver í sínum landshluta. Það eru tveir af þessum þremur hlutum sem nú er ætlunin að selja hæstbjóðanda. Sænska ríkið mun halda eftir og reka áfram skoðunarstöðvar sem dreifðar eru um allt landið.