Þýsku bílarnir bila minnst
Nýjasta bilanatölfræði ADAC, systurfélags FÍB í Þýskalandi sýnir, eins og í fyrra og hitteðfyrra, að þýskir bílar stöðvast sjaldnast á vegum úti vegna bilana. Tölfræðin er unnin upp úr útkallstölum vegaaðstoðar ADAC. Úr henni má lesa hvaða bíltegundir bila hlutfallslega oftast og sjaldnast og allt þar í milli og hvað það er sem bilar í bílunum. Eins og lengstum áður eru það rafmagnsbilanir sem oftast hefta för bílanna.
Japanskir bílar hafa lengi komið best út í þessari bilanatölfræði en síðustu árin hafa þýsku bílarnir sótt mjög á þá og að þessu sinni eru japanskir bílar bestir í einungis tveimur gerðarflokkum og eru báðir frá Mitsubishi.
ADAC hefur síðan árið 1978 tekið saman upplýsingar frá vegaþjónustu sinni um bilanir á vegum úti og býr nú að besta gagnagrunni heims um hvaða bílar verða strand og hvað það var sem bilaði. Tölfræðin sem nú birtist er byggð á útköllum vegaþjónustubíla ADAC – Gulu englanna árið 2007. Það ár fóru Gulu englarnir í rúmlega 2,5 milljón útköll á vegum Þýskalands. Út frá þessu verður til góður og marktækur listi yfir alla algengustu bílana í landinu og rekstraröryggi þeirra.
Japanskir bílar voru samkvæmt þessari tölfræði lengi þeir öruggustu í rekstri og Toyota hefur á þeim 30 árum sem liðin eru frá því að þessi upplýsingasöfnun hófst, átt minnst bilanagjörnu bílana alls 34 sinnum. Mercedes Bens kemur næst og hefur náð efsta sæti 32 sinnum og Audi er í þriðja sæti með 20 efstu sæti þessi 30 ár. Næst koma síðan Mazda og Mitsubishi sem skipta með sér fjórða sætinu með 11 toppsæti hvort merki um sig.
Vegaþjónustufólk ADAC heldur bókhald yfir útköll sín, hvað bilaði í hverjum bíl og hvað var gert. Það eru svo tölfræðingar sem vinna úr upplýsingunum og vinsa frá atvik sem ekki flokkast sem raunverulegar bilanir – atvik eins og eldsneytisþurrð, sprungin dekk og lyklar læstir inni í bílum. Úr þessu efni verða síðan til ómetanlegar upplýsingar um hvað það er sem helst bilar í bílum og hvaða bílar bila oftast og sjaldnast og allt þar í milli.
Bílunum er skipt upp í átta flokka og upplýsingarnar ná til bíla sem eru frá eins til sex ára gamlir og hafa verið framleiddir án grundvallarbreytinga í minnst þrjú ár. Hver bílgerð verður að vera til í þýsku bifreiðaskránni og í umferð í minnst 10 þúsund eintökum til að ná inn í tölfræðina.
Þýskir bílar eru í efstu sætunum þriðja árið í röð í öllum stærðarflokkum öðrum en flokki smábíla og flokki lítilla fjölnotabíla. Í fyrrnefnda flokknum er Mitsubishi Colt efstur og þeim síðarnefnda Mitsubishi Space Star. Hvernig einstakir bílar raðast niður má sjá á töflunni hér fyrir neðan. Tölurnar í lituðu reitunum eru tiðnitölur reiknaðar út frá meðaltali. Því hærri sem tala er, þeim mun verr kemur bíllinn út. Sterk-græni liturinn táknar minnsta bílanatíðni en rauði liturinn þá mestu í samanburðinum.
Hægt er að hlaða töflunni niður sem PDF skjali hér.