Þýskum lögum um ríkistök á VW hnekkt fyrir Evrópudómstólnum
24.10.2007
Porsche og Volkswagen í eina sæng?
Evrópudómstóllin hefur dæmt ógild þýsk lög frá 1961. Eftir dóminn er leiðin opin fyrir Porsche að eignast Volkswagen með húð og hári. Lögin frá 1961 kváðu á um það að minnst fimmtungur hlutabréfa í Volkswagen skyldu vera á forræði hins opinbera.
Árið 2005 keypti Porsche 31 prósent hlutabréfa í Volkswagen og evrópskar fréttastofur fullyrða að stjórnendur Porsche séu að undirbúa enn meiri hlutabréfakaup í því skyni að eignast Volkswagen að fullu og öllu. Þrátt fyrir að Porsche eigi nú tæpan þriðjung í Volkswagen hefur fyrirtækið einungis haft tvo fulltrúa sína í stjórn VW. Ástæða þess hefur verið fyrrnefnd lög frá 1961 hafa tryggt Neðra-Saxlandi þrjú stjórnarsæti þrátt fyrir að Neðra Saxland eigi í seinni tíð einungis 20,8% hlut í VW.
Gömlu lögin sem nú hafa verið dæmd ómerk takmörkuðu nefnilega atkvæðisrétt einstakra hluthafa við hæst 20% á hluthafafundum, alveg óháð því hversu stór hlutur viðkomandi var. Dómurinn mun því augljóslega breyta valdahlutföllum í stjórn VW.
Þrjú ára eru síðan Evrópuráðið höfðaði málið á hendur Þýskalandi til að fá lögunum hnekkt. Niðurstaðan liggur nú fyrir og er vísbending fyrir Evrópusambandsríkin um hversu öflugar skjaldborgir þeim leyfist að slá um stórfyrirtæki sín.