9 stiga Benz sjálfskipting
Níu hraða sjálfskipting verður fáanleg fljótlega í nýjum Mercedes Benz E fólksbílum en hún mun smám saman leysa af hólmi 7 hraða skiptinguna sem nú er í mörgum bílum frá Benz. Nýja skiptingin hefur verið í þróun um nokkurn tíma og átti upphaflega að koma fyrst fram í nýrri kynslóð S-lúxuslínunnar, en það er semsé vinnuhesturinn, E- línan sem ríður á vaðið.
Nýja 9 gíra skiptingin er minni um sig og léttari en 7 gíra skiptingin en helsti kostur hennar er sagður sá að hún lækkar umtalsvert snúningshraða vélarinnar umfram þá eldri og sparar þannig eldsneyti þegar háum „siglingarhraða“ er náð. Sem dæmi um það er að á 120 km hraða er snúningshraði vélarinnar á jafnri keyrslu einungis um 1.350 snúningar á mínútu. Þá getur hún verið búin búnaði sem slekkur á vélinni þegar stansað er, t.d. á rauðu ljósi og gangsetur hana á ný þegar aka skal af stað á ný (start-stopp búnaði).
Nýja sjálfskiptingin er vel sterk og þolir allt að þúsund Newtonmetra tog-álag. Það þýðir að hennar getur orðið að vænta í hinum aflmiklu AMG gerðum Benz fólksbíla.