Bensínstöðvum fækkaði í Bretlandi en fjölgaði á Íslandi
FÍB hefur oft í tímans rás vakið athygli hversu þétt net eldsneytisstöðva er á höfuðborgarsvæðinu og hversu óhagkvæmt það hlýtur að vera. Olíufélögin og sömuleiðis borgaryfirvöld og sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu gætu auðveldlega stýrt þéttleikanum – olíufélögin eftir hagrænum forsendum og yfirvöld með skipulagsaðgerðum og með t.d. með lóðaúthlutun og með því að endurúthluta lóðum vannýttra stöðva.
Með endurúthlutum vannýttra eldsneytisstöðvalóða og með skipulagi gætu sveitastjórnir stutt við aðgengi nýrra aðila að eldsneytismarkaðinum í stað þess að standa vörð um þær stöðvar sem fyrir eru, eins og borgin sýndi sig í því að gera gagnvart Krónunni í Örfirisey í Vesturbæ Reykjavíkur ekki alls fyrir löngu. Þá sótti rekstrarfélag verslana Krónunnar um leyfi til að koma upp eldsneytisafgreiðslu á verslanalóðum sínum í Örfirisey í Vesturbæ Reykjavíkur og í Kópavogi. Hugmyndin var (og er) sú að selja eldsneyti á verulega lægra verði en olíufélögin gera á bensínstöðvum sínum og mæta þannig væntanlegri samkeppni við Costco. Sjá þessa frétt.
„Reykjavíkurborg synjaði Krónunni um lóð úti á Granda, m.a. á mengunarforsendum en ég spyr hvort það sé hlutverk skipulagsyfirvalda að segja að það komist ekki fleiri á þennan markað og vinna þannig gegn neytendum,“ sagði Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB í viðtali við Fréttablaðið í sl. viku. Lyktir málsins urðu þær að Reykjavíkurborg hafnaði umsókn Krónunnar með þeim rökum að bensínstöðvar í borginni væru þegar allt of margar.
Fækkun stöðva erlendis
Staðsetning eldsneytisstöðva er, eins og segir í nýlegri skýrslu Samkeppnisstofnunar um íslenska olíumarkaðinn; ,,einn veigamesti áhrifaþátturinn við ákvörðun viðskiptavina um það við hvaða félag þeir versla. Með því að fjölga eldsneytisstöðvum má ná til fleiri viðskiptavina á kostnað annarra eldsneytissala.“
Gallarnir við hinar mörgu stöðvar eru hins vegar þeir að það er dýrt að byggja stöðvar, lóðir undir þær eru dýrar og dreifing á margar stöðvar er því dýrari þar sem stöðvarnar eru fleiri. Þetta eru ástæður þess að erlendis hefur stöðvum fækkað undanfarna áratugi. Í Bretlandi fækkaði þeim úr 10.876 árið 2004 í 8.677 2012. Það er rúmlega 20% fækkun og frá 1970 hefur þeim fækkað um 75% samkvæmt fyrrnefndri skýrslu Samkeppnisstofnunar. Á tímabilinu 2002-2012 fækkaði eldsneytisstöðvum í London um 32% og á Írlandi hefur þeim fækkað um helming frá árinu 2000.
Þveröfug þróun á Íslandi
Á Íslandi hefur þróunin hins vegar verið þveröfug. Tímabilið 2005-2014 fjölgaði stöðvum í landinu nefnilega um 18 sem er rúmlega 8% fjölgun. Það skýrist að hluta en ekki að öllu leyti með innkomu Atlantsolíu á markaðinn og því líka að stöðvum hinna olíufélaganna fjölgaði um þrjár samanlagt. Stöðvum N1 fækkaði á þessu tímabili um þrjár en fjölgaði um sex hjá Olís.
Árin 1983-2010 tvöfaldaðist fjöldi eldsneytisstöðvum í Reykjavík (úr 22 í 44) meðan íbúum borgarinnar fjölgaði aðeins um 35%. Það þýðir að íbúum á hverja stöð fækkaði um 35% svo að árið 2010 voru í Reykjavík 2.700 íbúar á hverja bensínstöð. Á Akureyri voru árið 2010 1.400 íbúar á hverja bensínstöð.
,,Það er enginn sem segir að það þurfi að vernda bensínstöðvar frekar en vídeóleigur. Þetta eru ekki menningarverðmæti sem við getum ekki verið án. Hér er fákeppnismarkaður en þrátt fyrir það eru ótrúlega margar bensínstöðvar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Runólfur. En hversu þétt er net bensínstöðvanna eiginlega?
Á höfuðborgarsvæðinu reka olíufélögin (samkvæmt samantekt FÍB) 75 dælustöðvar. Á landinu öllu eru 250 bensínstöðvar.
Sé miðað við fjarlægðir bensínstöðva við stærsta vinnustaðinn á höfuðborgarsvæðinu sem er Landspítalinn við Hringbraut, þá eru hvorki meira né minna en 28 bensínstöðvar í innan við fimm kílómetra akstursfjarlægð. Allar selja þær eldsneyti og margar selja hverskonar skyndibita en færri eru með bílavörur eins og kerti, þurrkublöð og fl. eins og í gamla daga.
Eftirfarandi 28 bensínstöðvar eru í innan við 5 km akstursfjarlægð frá Landspítalanum við Hringbraut:
Orkan Eiðistorgi (4,8 km frá Landspítala).
Orkan Austurströnd (5 km frá Landspítala).
N1 Ægisíðu (ca 3,7 km frá Landspítala)
Skeljungur Birkimel
Olís Ánanaustum
N1 Hringbraut (400 m frá Landspítala)
Olís Skúlagötu
Atlantsolía Skúlagötu
Olís Snorrabraut
Atlantsolía Flugvallarvegi
Orkan Skógarhlíð
Skeljungur Skógarhlíð
Skeljungur Laugavegi
Orkan Miklubraut (sunnanmegin)
Orkan Miklubraut (norðanmegin).
N1 Stóragerði
N1 Fellsmúla
Olís Sundagörðum
Olís Álfheimum
Olís Háaleitisbraut
Atlantsolía Skeifunni (3,4 km frá Landspítala)
N1 Kringlumýrarbraut
Atlantsolía Kópavogsbraut
Olís Hamraborg (4 km frá Landspítala)
N1 Borgartúni
N1 Vatnagörðum
Orkan Klettagörðum
Atlantsolía Sprengisandi