Bílatryggingar mun dýrari á Íslandi en hinum Norðurlöndunum
Bílatryggingar eru 50-100% dýrari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum samkvæmt samanburði sem FÍB gerði í október. Ítarlega er fjallað um þessa iðgjaldakönnun í nýútkomnu blaði FÍB.
Engar eðlilegar skýringar eru á því hvers vegna munurinn er svona mikill íslenskum bíleigendum í óhag. Í Danmörku eru bílar til dæmis dýrari en hér og laun svipuð. Samt eru íslensku bílatryggingarnar 57-97% dýrari en þær dönsku. Danskt tryggingafélag innheimtir rúmlega 97 þúsund króna iðgjald á móti 153 til 192 þúsund króna iðgjaldi íslensku félaganna.
Einu „eðlilegu“ skýringarnar á þessum mikla verðmun liggja í því að íslensku tryggingafélögin okra á bíleigendum vegna þess að þau komast upp með það. Engin raunveruleg samkeppni ríkir á milli félaganna og hefur aldrei gert. Fjármálaeftirlit Seðlabankans beinlínis hvetur félögin til að hafa sem hæst iðgjöld. Þessum ofteknu iðgjöldum er safnað í tugmilljarða króna sjóði sem tryggingafélögin ávaxta í þágu eigenda sinna.
Í könnun FÍB voru tekin hliðstæð dæmi um bíltegundir og fjölskylduaðstæður, til að fá sem réttastan samanburð. Óskað var eftir iðgjaldatilboðum í VW Golf annars vegar og Toyota RAV hins vegar. Hér má sjá töflu yfir iðgjöldin sem tryggingafélög á Norðurlöndunum buðu í Golfinn.
Iðgjöld á Norðurlöndunum Íslenskar krónur |
VW Golf eTSI 150 Ábyrgð og kaskó |
TM |
153.156 |
Vörður |
177.352 |
VÍS |
180.825 |
Sjóvá |
192.668 |
Svíþjóð/Gautaborg |
85.300 |
Danmörk/Kaupmannahöfn |
97.500 |
Noregur/Osló |
105.500 |
Finnland/Helsinki |
112.500 |
Næstu daga verður nánar fjallað hér á vefsíðu FÍB um iðgjaldasamanburðinn.