Bygging Ölfusárbrúar verður ekki alfarið svokallað samvinnuverkefni

Ríkissjóður þarf að borga 18 milljarða króna þegar ÞG-verk afhendir nýju Ölfusárbrúna tilbúna til notkunar árið 2028. Ekkert verður því úr að bygging brúarinnar verði alfarið svokallað samvinnuverkefni þar sem verktakinn byggir og innheimtir svo sjálfur brúartolla næstu áratugi til að fá borgað.

ÞG-verk lánar ríkissjóði hins vegar framkvæmdakostnaðinn á byggingartímanum og fær borgaða vexti sem áætlaðir eru 3,6 milljarðar króna.

Ríkið áformar að innheimta brúartolla til að kosta mannvirkið. Stór hluti brúartollanna fer til að borga vexti af lántöku sem ríkissjóður þarf að ráðast í til að geta borgað ÞG-verki.

Á fréttavef FÍB er nánar fjallað um byggingu nýju Ölfusárbrúarinnar og líklegar upphæðir brúartolla.