Sjóvá skili 2,5 milljörðunum til tryggingataka
Sjóvá hefur kynnt áform um að greiða hluthöfum 2,5 milljarða króna í tengslum við hlutafjárlækkun félagsins. Þessi fjárhæð kemur til viðbótar við 2,65 milljarða króna arðgreiðslu ársins. Samtals ætlar Sjóvá því að greiða hluthöfum rúmlega 5 milljarða króna.
Ástæðu greiðslunnar til hluthafa segir Sjóvá vera þá að geta félagsins til að greiða tjón sé „fyrir ofan efri mörk viðmiða.“ Það er vægt til orða tekið. Sjóvá liggur á gríðarlegum fjármunum sem félagið hefur sankað að sér með ofteknum iðgjöldum, ekki síst af bílatryggingum. Hluthafar Sjóvá eiga ekki þessi „efri mörk viðmiða“, heldur tryggingatakar. Með réttu á Sjóvá að skila þessum 2,5 milljörðum króna til viðskiptavina sinna.
Líkt og öll hin tryggingafélögin hefur Sjóvá okrað á tryggingatökum áratugum saman. Þannig hefur Sjóvá byggt upp sterka eiginfjárstöðu og um leið lagt „afganginn“ í bótasjóði undir því yfirskini að þurfa að eiga fyrir tjónum. Evrópusambandið breytti þessu fyrirkomulagi fyrir löngu með Solvency 2 reglugerðinni. Samkvæmt henni er eigin fé tryggingafélaganna ætlað að mæta áhættu vegna tryggingastarfseminnar, ekki bótasjóðum (sem eru kallaðir tjónaskuld). Eigið fé Sjóvá er næstum helmgingi hærra en Solvency 2 krefst. Nú ætlar Sjóvá að afhenda hluthöfum hluta af þessum umframsjóði – og sitja áfram sem fastast á bótasjóðum sínum. Það kallar Sjóvá í tilkynningu að „laga fjármagnsskipan félagsins.“ Félagið liggur einfaldlega á meiri peningum en þörf er fyrir vegna þess að það innheimtir óeðlilega há iðgjöld.
Hluthafar Sjóvá hafa ekki aflað þessara fjármuna. Þeir eiga engan rétt á þeim. FÍB skorar á stjórn Sjóvá að leggja til við hluthafafund félagsins að hlutafjárlækkunin gangi til viðskiptavina.