Fjármálaráðherra á 38 ára gömlum bíl
Steingrímur J. Sigfússon nýr fjármálaráðherra mætti til ríkisráðsfundar á Bessastöðum á sunnudagskvöld á Volvo árgerð 1971, sem hann hefur átt lengi. Bíllinn ber skráningarnúmerið Þ-2012. Þ var samkvæmt gamla bílnúmerakerfinu skráningarstafur bifreiða í Þingeyjarsýslum, en eins og kunnugir vita er Steingrímur frá bænum Gunnarsstöðum í Þistilfirði skammt frá Þórshöfn.
Volvoinn góði á sér sunnlenska sögu. Upphaflegur eigandi bílsins var Brynjólfur Helgason trésmiður á Selfossi, sem látinn er fyrir allmörgum árum. Hann var bróðir Ingibjargar Helgadóttur móður Bergnýjar Marvinsdóttur, eiginkonu Steingríms. Rótgrónir Selfossbúar muna því ef til vill eftir Brynjólfi og bílnum góða, sem fyrr á tíð bar skráningarnúmerið X 1500.
-sbs