Framrúðan mikilvægur hluti burðarvirkis bílsins
Að mörgu leyti er bílamenningin hér á landi talsvert á eftir þróuninni sem orðið hefur í sjálfum bílunum sl. áratugi, einkum þá tvo síðustu. Nútímabílar eru meira og minna tölvustýrðir sem krefst mun meiri kunnáttu og sérhæfingar í viðgerðum en áður þurfti. Jafnframt eru þeir miklu öruggari en eldri bílarnir voru og einmitt af þeim sökum krefjast allar tjónaviðgerðir miklu meiri sérfræðiþekkingar en fyrr. Því er svarti viðgerðamarkaðurinn allur í raun orðinn harla vafasamur. Sú kunnátta og þau
Réttu tækin. Tvö spil með sog-skálum sem festast innan á rúð-una sem á að fjarlægja. |
Vírinn lempaður undir brún rúð-unnar |
Vírinn „spilaður“ inn. |
Rúðusætið hreinsað og kíttað á ný... |
...og nýju rúðunni komið fyrir. |
verkfæri sem til þarf til viðgerða, sérstaklega þó tjónaviðgerða er einfaldlega ekki til staðar í bílskúrunum heldur á sérhæfðum viðgerðaverkstæðum.
Bílafloti Íslendinga hefur elst hratt frá efnanahagshruninu. Endurnýjun hefur verið sáralítil og þótt heldur hafi landið verið að rísa undanfarið er hún mun hægari en eðlilegt getur talist. Einn fylgifiskur þessa er að sökum fátæktar hafa margir ekki efni á að halda gömlu bílunum sínum sómasamlega við. Nauðsynlegt viðhald og endurnýjun slithluta er trassað og svört viðgerðaþjónusta blómstrar - starfsemi sem litla ábyrgð tekur á verkum sínum, kann í mörgum tilfellum illa til verka og greiðir ekki skatta og skyldur til samfélagsins.
Fréttavefur FÍB heimsótti Val Helgason bifreiðasmið á dögunum. Valur lærði og starfaði lengi í Svíþjóð og þar í landi þarf t.d. að sækja sérstakt námskeið og fá faggildingu til að mega skipta um framrúðu í nútímabíl. Og af hverju, spyrjum við. Jú, vegna þess að framrúðan er hluti af burðarvirki bílsins og þegar skipta þarf um framrúðu þarf að gera það á sérstakan hátt og nota réttu efnin til að hún sitji rétt og tryggilega og gegni hlutverki sínu sem hluti burðarvirkis og öryggishönnunar bílsins.
Hér á landi gilda engar sérstakar reglur um hvernig skipta skal um framrúðu í bílum. Ekki þarf heldur að setja nýja loftpúða í bíla sem gert hefur verið við eftir árekstra og slys. Eina sem um þau mál segir í reglugerðum er að séu loftpúðar fjarlægðir úr bílum t.d. í viðgerðum eftir tjón skal fjarlægja allar merkingar um að þeir séu (eigi að vera) í bílnum. Valur gagnrýnir losarabrag á þessum málum hér og þá staðreynd að bílar sem tryggingafélög selja hæstbjóðendum eftir tjón fari oftar en ekki til viðgerðar hjá fólki sem hvorki kann né hefur þann búnað sem til þarf til að viðgerðin teljist sómasamlega af hendi leyst. Síðan komist þessir bílar aftur í umferð og eru þá mun háskalegri en áður eins og slysarannsóknir hafi oft leitt í ljós. Þetta sé afar hæpinn sparnaður því að líkamstjón eru alla jafna miklu hærri útgjaldaliður í slysauppgjörum heldur en eignatjónið.
En aftur að framrúðunum: Valur vitnar í skýrslur rannsóknanefndar umferðarslysa. Þar hefur ítrekað komið fram að fyrir slys hafi verið skipt um framrúðu í bílum. En límingin hafi ekki verið betur frágengin en svo að loftpúðar hafi slegið framrúðuna úr þegar þeir sprungu út við árekstur. Framrúðan beri um 30% af styrk burðarvirkisins í kring um hana, að því tilskyldu að hún sé límd í samkvæmt forskrift framleiðanda bílsins og að rúðan sjálf uppfylli staðla um gæði og styrk. Ef árekstur á sér stað sé það m.a. hlutverk framrúðunnar að beina megin sprengikrafti loftpúðans að ökumanni eða farþega í framsæti til að verja þá sem mest og best. Jafnframt sé það hlutverk framrúðunnar að halda því sem í bílnum er, fólki og farangri, innan hans meðan áreksturinn gengur yfir. Framrúðan megi því alls ekki þeytast út undan loftpúðanum, eins og dæmi eru um.
Fréttamaður FÍB hefur skoðað bíl sem lenti í alvarlegu slysi sl. vor. Framrúðan skaust úr sæti sínu í hamförunum. Þegar ramminn kring um hana er skoðaður sést að skipt hefur verið um framrúðu, trúlega oftar en einu sinni. Við skiptin hefur lakk og ryðvörn verið skafið burtu á löngum köflum framsúðusætisins. Það hefur síðan ryðgað undir nýju rúðunni þannig að hún var hálf laus í sæti sínu þegar slysið varð.„Það er því lífsnauðsyn að þetta sé gert vel og samkvæmt fyrirmælum framleiðanda bílsins og að notuð séu rétt verkfæri og rétt efni þegar nýja rúðan er límd í, “ segir Valur Helgason.