Hvað mun kosta að fara yfir nýju Ölfusárbrúna?

Verður brúartollurinn svipaður og kókflaska kostar í Bónus eða eins og hún kostar í bensínsjoppu? Þar á er ekki lítill verðmunur.

Loksins er byrjað á framkvæmdum við nýja brú yfir Ölfusá og á hún að verða tilbúin árið 2028. Brúartollur á að borga framkvæmdina, en óljóst er hver upphæðin tollsins á að verða. Sigurður Ingi Jóhannsson fyrrum innviðaráðherra taldi á Facebook árið 2021 að gjaldið gæti orðið á bilinu 300-450 krónur. Á núvirði gerir það 380-570 krónur. Í viðtali í nóvember í fyrra talaði Sigurður Ingi um að brúartollurinn yrði svipaður og verð einnar kókflösku. Hann tók þó ekki fram hvort flaskan sú væri keypt í Bónus eða á bensínsjoppu. Þar á getur verið helmingsmunur eða meira.

Hálft samvinnuverkefni

Lengi vel var rætt um að Ölfusárbrúin yrði byggð sem samvinnuverkefni þar sem verktakinn stæði undir öllum kostnaði og fengi endurgreitt með því að innheimta brúartolla í einhverja áratugi. Ríkissjóður þyrfti því ekki að skuldsetja sig, hvorki í formi lántöku né ríkisábyrgðar. Nú liggur fyrir að verktakinn ÞG-verk, mun aðeins fjármagna brúarsmíðina þar til hún klárast árið 2028. Þá verður brúin afhent ríkissjóði sem borgar ÞG-verki upp í topp, þar á meðal fyrir fjármögnunina. Byggingarkostnaður brúarinnar ásamt fjármagnskostnaði á byggingartíma er áætlaður alls 18 milljarðar króna.

Ríkissjóður verður væntanlega ekki búinn að leggja til hliðar 18 milljarða til að gera upp við ÞG-verk, heldur mun skuldsetja sig fyrir upphæðinni og í framhaldinu ná þeim fjármunum til baka með brúartollum í einhverja áratugi.

Kókflaska eða rauðvínsflaska?

Miðað við núverandi ávöxtunarkröfu á löng óverðtryggð ríkisskuldabréf má gera ráð fyrir að fjármagnskostnaður ríkisins nemi um 6,6% á ári. Lengd skuldsetningarinnar hefur áhrif á heildarkostnaðinn. Fjöldi bíla sem fer yfir brúna, svo og greiðsluvilji bíleigenda, ræður síðan mestu um upphæð brúartollsins.

Hálfs lítra kókflaska kostar 194 krónur í Bónus. Ef brúartollur á að nema þeirri upphæð, þá tekur það ríkissjóð meira en 50 ár að ná inn kostnaðinum af Ölfusárbrúnni. En ef innheimtar yrðu 7.480 krónur fyrir hverja bílferð yfir brúna, eða sem nemur góðri rauðvínsflösku, þá tæki aðeins eitt ár að klára málið.

Í þessum útreikningum er miðað við 7.000 bíla umferð á dag yfir brúna á fyrsta heila rekstrarárinu og að hún aukist að jafnaði um 3% milli ára til langrar framtíðar.

Var Sigurður Ingi kannski að hugsa um kókflösku á bensínsjoppu?

Ljóst er að fara þarf milliveginn í álagningu brúartollsins til að bíleigendur sjái sér hag í því að fara yfir nýju brúna fremur en þá gömlu. Verð á kókflösku í bensínsjoppu gæti verið vísbending um þann milliveg. Ef taka á inn allan framkvæmdakostnaðinn á 30 árum, þá þyrfti brúartollurinn að vera 395 krónur. Ef klára á málið á 20 árum þyrfti brúartollurinn að vera 510 krónur. Þetta er svipað og borga þarf fyrir kókflöskuna í bensínsjoppunni.

Í stöðuyfirliti frá innviðaráðuneytinu snemma árs 2024 kom fram að miðað við grunnspá umferðar mætti gera ráð fyrir að stakur brúartollur yrði 495 krónur og lægsta verð (með magnáskrift) yrði 250 krónur.

Því skemmri tíma sem tekur að greiða niður kostnaðinn við nýju Ölfusárbrúna, þess lægri verður hann í heild sinni vegna lægri vaxtakostnaðar. Sem dæmi má nefna að með því að rukka 870 krónur fyrir hverja ferð tæki það 10 ár að klára málið. Í þessum útreikningum er ekki tekið tillit til kostnaðar við innheimtuna.

Áhrif fjármagnskostnaðar á brúartollinn

Ef gengið hefði verið alla leið með brúarsmíðina sem samvinnuverkefni, þannig að verktakinn hefði sjálfur innheimt brúartollinn, þá hefði heildarkostnaðurinn orðið töluvert meiri en með því fyrirkomulagi sem ríkið hefur samið um við ÞG-verk. Munurinn liggur í því að einkafyrirtæki þarf að fjármagna sig með hærri vöxtum en ríkissjóður.

Í útreikningum sem FÍB birti í október 2024 kom fram að miðað við 20 ára innheimtutíma brúartolla verktakans gætu heildargreiðslur bíleigenda orðið um 59 milljarðar króna. Miðað við 30 ára innheimtutíma gætu þær farið í 92 milljarða króna. Vegna lægri ávöxtunarkröfu skuldabréfa ríkissjóðs sparast því verulegar fjárhæðir. Á móti kemur að skuldastaða ríkisins versnar, sem er varla á bætandi.

Skattgreiðendur gætu þurft að bera hálfan kostnaðinn

Í fjáraukalögum fyrir síðustu áramót var samþykkt að ef brúartollar dygðu ekki til að standa undir öllum kostnaðinum við byggingu nýju Ölfusárbrúarinnar, þá geti ríkið tekið á sig allt að 50% af honum. Skattgreiðendur myndu sem sagt borga þann brúsa og létta innheimtumanni ríkissjóðs í leiðinni að fínstilla upphæð brúartollsins í samræmi við líklegan greiðsluvilja bíleigenda. Ef strax yrði ákveðið að brúartollurinn standi aðeins undir 50% kostnaðarins, þá þyrfti t.d. að innheimta 255 krónur fyrir hverja ferð til að borga brúarsmíðina upp á 20 árum. Á 30 ára tímabili innheimtu væri komið að verði kókflöskunnar í Bónus, 194 krónur per ferð.

Upphæð brúartollsins miðað við mismunandi endurgreiðslutíma

Niðurstaða útreikninga fyrir FÍB er sú að meðalgjald per ferð við upphaf gjaldtökunnar, að frádregnum innheimtukostnaði, háð þeim tíma sem gæfist til endurheimtu, væri eins og taflan sýnir.

 

Brúartollur miðað við að hann standi undir 100% kostnaðarins

 

Brúartollur miðað við að ríkissjóður borgi 50% kostnaðarins

Endur-greiðslu-tími

7.480 kr

3.740 kr

1 ár

1.602 kr

801 kr

5 ár

870 kr

435 kr

10 ár

629 kr

314 kr

15 ár

510 kr

255 kr

20 ár

440 kr

220 kr

25 ár

388 kr

194 kr

30 ár

363 kr

181 kr

35 ár