Lýsa yfir áhyggjum af hættulegu ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi

Hættustig hafa verið í gildi á síðustu dögum vegna blæðinga í vegum víða á Vesturlandi. Má nefna á Bröttubrekku (60), í gengum Dalina (60), yfir Svínadal (60) og út Hvolsdal (60) en einnig á veginum yfir Vatnaleið á Snæfellsnesi (56), undir Hafursfelli (54) og að Heydalsafleggjara(54). Sama gildi um þjóðveg 1, frá Borgarnesi yfir Holtavörðuheiði í Hrútafjörð.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar, ræddi og ályktaði í síðustu viku, enn og aftur, um ástand þjóðvega á Snæfellsnesi. Ástandið hefur líklega aldrei verið verra og hafa fjölmargir vegfarendur lent í hremmingum og jafnvel stórhættu, vegna slæms ástands veganna, út af djúpum holum, ósléttu yfirborði og ekki síst vegna tjöru sem "blætt" hefur úr vegunum í hlýindum síðustu daga.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir enn og aftur yfir þungum áhyggjum af síversnandi og hættulegu ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.

Ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú. Hættan sem leiðir af ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir notendurna. Á það jafnt við um íbúa, gesti, atvinnubílstjóra og neyðarflutninga.

Vegagerðin hefur unnið við að moka tjöru af "blæðandi" þjóðvegum á Snæfellsnesi. Fjölmargir akandi vegfarendur hafa orðið fyrir óþægindum og tjóni á ökutækjum sínum, vegna ástands þjóðveganna, þegar þykk tjara leggst á hjólbarða og aðra fleti bifreiða. Slíkt er ekki einungis hvimleitt, heldur er umferðaröryggi stórlega ógnað, auk þess sem þetta hefur þegar valdið eigendum ökutækja fjárhagstjóni.

Á meðfylgjandi myndbandi frá vegfaranda má sjá hvernig dekkin voru illa leikin í blæðingum eftir ferð hans um vegi á Vesturlandi.