Meiri tíma þurfi til að koma svona grundvallarbreytingum á
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, gagnrýnir að enn sé stefnt að því að innheimta sama kílómetragjald af öllum bílum undir þremur og hálfu tonni. Frumvarpi fjármálaráðherra um kílómetragjald á ökutæki var dreift á Alþingi um helgina.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda gagnrýnir að enn skuli ekki vera gerður greinarmunur á léttum fólksbílum og þungum jeppum við innheimtu kílómetragjalds. Þá sé eðlilegt að öll aukagjöld fari inn í gjaldið til að tryggja að lækkun eldsneytisverðs skili sér til neytenda.
Frumvarpi fjármálaráðherra um kílómetragjald á ökutæki var útbýtt á Alþingi um helgina. Frumvarpið er að mestu óbreytt frá frumvarpi fyrrverandi fjármálaráðherra sem lagt var fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga.
Sama gjald fyrir smábíla og stóra jeppa
Þar er sem fyrr gert ráð fyrir að gjald í lægsta flokki sé 6 krónur og 70 aurar fyrir bíl upp að þremur og hálfu tonni og fari síðan hækkandi upp að 31 tonni þar sem gjaldið verður 43,56 á kílómetrann. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir í samtali á RÚV að félagið í grunninn sammála um að bíleigendur borgi í samræmi við notkun á vegakerfinu og kílómetragjald sé einföld leið til þess.
„Eitt af því sem að við hnjótum um er að þarna, sem fyrr, er gert ráð fyrir að eitt gjald sé á öll ökutæki, það er að segja alla bíla upp að þremur og hálfu tonni. Þar með eru eigendur smárra léttra bíla að borga sama gjald og þeir sem eru með stóra þunga jeppa, sem við teljum mjög ósanngjarnt og alls ekki í samræmi við markmið frumvarpsins sem sett eru fram og vinna þannig gegn loftslagsmarkmiðum stjórnvalda," sagði Runólfur í samtalinu á RÚV.
Næstu áramót skynsamlegri tímasetning
Þá telur Runólfur að meiri tíma þurfi til að koma svona grundvallarbreytingum á, en gert er ráð fyrir að ný lög taki gildi 1. júlí. Runólfur telur næstu áramót skynsamlegri tímasetningu. Þá sé full ástæða til að setja öll aukagjöld á ökutæki inn í kílómetragjaldið, eins og bifreiðagjaldið, sem miðast við þyngd ökutækis óháð notkun.
„Við teljum líka að með því að taka skattinnheimtuna vegna kolefnisgjaldsins af olíufélögunum þá sé hægt að hafa betri yfirsýn yfir álagningu olíufélaganna og fylgjast betur með. Eitt af því sem að við vildum sjá er sérstakt átak af hálfu stjórnvalda þegar á að lækka eldsneytisgjöldin all hressilega eins og er fyrirhugað með þessum breytingum, þá sé fylgst með því að olíufélögin skili þeirri lækkun til neytenda. Eins og við höfum bent á að sporin hræða varðandi það," sagði Runólfur Ólafsson.