Skattar á bíla í nýju fjárlagafrumvarpi
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vegna eldsneytisskatta muni hækka á næsta ári um 2.775 milljónir króna sem er 10,9% tekjuaukning samanborið við fjárlögin fyrir 2017. Þarna er um að ræða vörugjald og sérstakt vörugjald af bensíni og olíugjald af dísilolíu sem eiga að skila 28.240 milljónum króna í tekjur árið 2018.
Þyngst vegur 50% hækkun kolefnisgjalds af bensíni og dísilolíu sem skila ríkissjóði ríflega 3.500 milljónum króna í tekjur sem er rúmlega 1.200 milljóna króna aukning miðað við fjárlögin í ár. Gert er ráð fyrir að kaupmáttaraukning ásamt fjölgun ferðamanna segi til sín í 1,5% aukningu bensínsölu og 3% aukningu dísilsölu.
Tekjur ríkissjóðs af bifreiðagjaldi á næsta ári 7.450 milljónir
Jafnframt hækka gjöldin um 2% í ársbyrjun 2018 (vísitala neysluverðs) eins og önnur krónutölugjöld. Þess má geta að ofan á þessi eldsneytisgjöld leggst virðisaukaskattur sem mun skila ríkissjóði á sjöunda milljarð króna í tekjur. Tekjur ríkissjóðs af bifreiðagjaldi á næsta ári eru áætlaðar 7.450 milljónir króna sem er 300 milljóna króna hækkun samanborið við fjárlög líðandi árs. Gert er ráð fyrir að kílómetragjald á vöru- og flutningabíla hækki um 110 milljónir króna og verði 1.100 milljónir króna.
Undanþága og afsláttur af virðisaukaskatti af umhverfisvænni bílum, s.s. rafmagns- og tvinnbílum verður framlengdur til þriggja ára. Það er vel að gefa lengri tímaramma en eitt ár eins og verið hefur síðustu árin.
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2018 er gert ráð fyrir samdrætti í tekjum ríkissjóðs af vörugjöldum nýskráðra ökutækja. Tekjurnar eru áætlaðar 7.900 milljónir króna sem er 500 milljónum króna undir áætlun fjárlaganna fyrir 2017. Bílainnflutningur og –sala hefur verið mun meiri í ár en áætlað var þannig að samdrátturinn miðað við rauntekjur er líklega nær 1.800 milljónum króna.
Fram kemur að nú standi yfir vinna í starfshópi fjármálaráðherra um heildarúttekt á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Hópnum er ætlað að gera tillögur um framtíðarstefnu stjórnvalda varðandi bílaskatta með það m.a. að markmiði að skattlagningin stuðli að minni losun gróðurhúsalofttegunda en tryggi ríkissjóði tekjur til að standa undir viðhaldi og uppbyggingu samgöngumannvirkja en dragi úr skattlagningu við eign og öflun ökutækja.
Þessi setning úr fjárlögunum er athyglisverð því að óbreyttu þarf að hækka skatta á eldsneyti verulega ef hugmyndin er að draga úr sköttum við eign og öflun fjölskyldubíla.
FÍB væntir þess að fá aðkomu að þessari vinnu ríkisstjórnarinnar sem fulltrúi neytenda enda eiga hátt í 18.000 fjölskyldur aðild að félaginu.