Svifryk sest á bílana – besta leiðin í þrifum

Gosmóða og gasmengun frá eldgosinu í Sundhnúksgígaröð á Reykjanesskaga hefur legið yfir höfuðborgarsvæðið síðustu daga. Hækkuð gildi af fínna svifryki, svokallað nornahár, og einnig hækkuð gildi brennisteinsdíoxíðs koma fram á mælistöðvum víða á höfuðborgarsvæðinu. Bifreiðar hafa ekki farið varhlutan í þessum kringumstæðum en þetta fína svifryk hefur sest á bílana.

Hvað á til bragðs að taka í þessum aðstæðum og hvernig er best að þrífa bílana. Rispur geta hæglega komið í bílalakk ef aska er þurrkuð af bílum með tusku eða kústi. Best er því að byrja á því að spúla vel af áður en bíllinn er þrifinn með svampi og sápulegi. Þannig draga menn úr hættu á því að búa til örfínar rispur í lakkið.

Sem betur fer hafa ekki verið spurnir af miklum lakkskemmdum á bílum eftir öskufallið á höfuðborgarsvæðinu en ástæða er til þess að benda á hvernig best sé að þrífa bílana. Askan er allt annars eðlis en ryk, hún rispar ef hún er þurrkuð af bílum, og alls ekki á að spara vatnið þegar verið er að skola bílinn.
Best sé að þrífa bílana strax að loknu öskufalli því komist vatn í öskuna og sól skíni á yfirborðið geti hún brennt lakkið. Annað sem bílaeigendur eigi að forðast sé að skola ösku af rúðu með rúðupissi og þurrkum, það rispi þær. Eins eigi ekki að skrúfa niður hliðarrúðurnar. Réttar aðferðir við öskuþrif skipta bílaeigendur máli, því fátt vegur þyngra í endursölu bíla en fallegt útlit.

Þórir Jökull Helgason hjá Classic Detail segir mikilvægt að þrífa bílinn með því að sprauta sjampó með froðusprautu og láta liggja á lakkinu í 4-5 mínútur. Það losar vel og síðan háþrýstiþvo.

,,Það er ekki gott að fá þetta á bílana og vanda þarf til verka á allan hátt. Ef háþrýstingsgræjur eru ekki fyrir hendi þá einfadlega að grípa til garðslöngunnar. Góð skolun skiptir miklu máli,“ segir Þórir Jökull.

Til fróðleiks verður gosmóða eða blámóða loftmengun til þegar SO2, önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka með tilstuðlan sólarljóssins. Hún hefur einkennandi blágráan lit sem myndast er sólarljósið brotnar á ögnum/úða.