Vetnisbílar hafa ekki eins greiðan aðgang að orku og aðrir bílar
Í maímánuði 2019 breyttist bensínstöð Orkunnar norðan Miklubrautar í fyrstu fjölorkustöð landsins þar sem ökumenn og aðrir notendur gátu keypt nær alla
endurnýjanlega orkugjafa sem framleiddir eru til samgangna hér á landi auk hefðbundis jarðefnaeldsneytis. Um sögulegan atburð var að ræða í orkusölu landsins því að þetta var í fyrsta skipti sem slíkt er gert á sömu áfyllingarstöðinni. Miklar vonir voru bundnar við opnun þessarar stöðvar og þótti hún marka ákveðið upphaf og framfaraspor að margra mati.
Metangasið kom frá frá urðunarstað Sorpu í Álfsnesi, hraðhleðsla fyrir rafmagns- og tengiltvinnbíla frá Orku náttúrunnar og þá var hægt að fá vetni frá Orku náttúrunnar sem framleitt er með rafgreiningu í Hellisheiðarvirkjun. Fjölorkustöðin við Miklubraut var samstarfsverkefni sem hafði verið í undirbúningi um langt skeið og Evrópusambandið styrkti um tvær milljónir evra.
Þjónustan ekki nógu góð
Nú eru breyttir tímar því fjölorkustöðinni við Miklubraut hefur verið lokað og hafa eigendur vetnisbíla aðeins aðgang að vetni fyrir bílana á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni, annars vegar á Vesturlandsvegi í Reykjavík og við Fitjar í Reykjanesbæ hins vegar. Það er ljóst að þjónustan við vetnisknúnabíla er ekki eins og best verður á kosið. Hvað veldur og hvað ber framtíðin í skauti sér?
Hjá Orku náttúrunnar fengust þær upplýsingar að fyrirtækið framleiði vetni við Hellisheiðarvirkjun og selji í smásölu til Íslenska vetnisfélagsins (ÍV), dótturfélags Skeljungs.
,,Vetnisframleiðslan á Hellisheiði hefur gengið vel en framleiðsla hófst af alvöru seinni hluta ársins 2020. Covid takmarkanir settu strik í reikninginn varðandi áfyllistöðvarnar. Óvæntar rekstrarstöðvanir drógust á langinn þar sem skortur var á þjálfuðum mannskap í þau verk og bíða þurfti eftir erlendum aðila til að sinna þeim. ÍV er nú búið að þjálfa aðila og ætti því að vera minna um niðurtíma vegna viðhalds. Undanfarið hefur samstarf ON og ÍV gengið vel og eins og staðan er í dag þá annar framleiðslan vel þeirri eftirspurn sem er til staðar,“ segir Hólmfríður Haraldsdóttir sérfræðingur í orkumiðlun hjá Orku náttúrunnar.
Framboð af bílum og vetnisstöðvum þarf að haldast í hendur
Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi, var spurður hvernig gengi almennt fyrir eigendur vetnisbíla að nálgast og fá vetni á bílana sína og hvað mætti betur fara í þessum efnum?
,,Núna eru tvær vetnisstöðvar starfræktar, í Reykjavík og Reykjanesbæ. Eigendur vetnisbíla hafa því ekki enn sem komið er eins greiðan aðgang að sinni orku og eigendur annarra bíla. Framboð af bílum og vetnisstöðvum þarf að haldast í hendur. Vetnisbílarnir eru fáir og þó stöðvarnar séu aðeins tvær, gætu þær sinnt margfalt fleiri bílum en eru í umferð,“ sagði Páll.
- Hvað með framboðið á vetnisbílum. Er það nægt og er áhuginn enn fyrir hendi hjá umboðinu varðandi þessa bíla?
,,Okkur hjá Toyota finnst vetnisbílar vera mjög spennandi kostur því þeir geta sinnt eftirspurn eftir rafmagnsbílum og þeir hafa ýmislegt fram yfir venjulega rafmagnsbíla. Vetnisbílar eru í grunninn venjulegir rafmagnsbílar að því frátöldu að búið er að taka út hleðsluþáttinn og flýta fyrir með því að búa til vetni með rafgreiningu sem svo aftur er breytt í rafmagn í bílnum sjálfum. Þannig sparast sá mikli tími sem fer í að hlaða rafbíla því einungis tekur nokkrar mínútur að fylla bílinn af vetni.“
- Hver er sýn Toyotu varðandi framtíð vetnisbíla og þjónustu við vetnisbílaeigendur?
,,Við sjáum ekki annað en að úrval af vetnisbílum muni aukast. Sérstaklega í stærri bílum, strætisvögnum, rútum og vöruflutningabílum en einnig í stærri fólksbílum,“ sagði Páll Þorsteinsson.
Takmarkandi að hvergi nema á suð-vestur horninu sé aðgangur að vetni
Heiðar Jón Sveinsson, framkvæmdastjóri Hyundai á Íslandi, segir að eins og er sé ágætt að eiga við það að fylla á vetni. Það eru tvær stöðvar virkar, Fitjar og Vesturlandsvegur. Það er handhægt að dæla og á færi allra almennra notenda. Það er þó takmarkandi að hvergi annarstaðar á landinu er aðgangur að vetni. Þetta skýrist líklega af því að uppbygging er dýr en viðbúið að innviðir muni líklega vaxa með aukinni notkun.
,,Fram til þessa hefur bara verið í boði að kaupa fólksbíla eða jepplinga á Íslandi. Við hjá Hyundai á Ísland höfum átt vetnisbíl á lager síðan 2018. Hyundai hefur sett mikla vinnu í þróun á rafbílum. Við bjóðum í dag uppá vöruflutningabíla, strætisvagna, rútur og fólksbíla. Hyundai á Íslandi hefur menntað fólk í þjónustu við vetnisbíla og mun viðhalda þeirri þekkingu og þjónustu að óbreyttu,” sagði Heiðar Jón Sveinsson hjá Hyundai.
Ekki gott í svona frumkvöðlaverkefni
Aðspurður hvort einhver vandræði hafi verið varðandi áfyllingu á vetnisbílana sagði Heiðar ekki hafa frétt af neinum vandræðum með að setja vetni á þegar stöðvarnar eru að fullu virkar.
,,Það hefur komið upp að vetnisdælurnar hafi bilað og eins stundum gengið illa að fylla tankinn. Það er að sjálfsögðu bagalegt og ekki til framdráttar í svona frumkvöðlaverkefni. Ég tel að þetta sé eitthvað sem verið er að vinna við að bæta,” sagði Heiðar.
Hvað er vetni?
Hvað er vetni? Til upplýsinga þá er vetni lofttegund sem er til staðar í miklu magni í alheiminum en á jörðinni fyrirfinnst hún að mestu leyti í vatni og lífrænum efnasamböndum. Nýta má vetni til að knýja bíla en þá þarf hreint vetni til að setja á bílana. Ein leið til að framleiða vetni er með rafgreiningu vatns sem skilur að vetni og súrefni úr vatnssameindunum. Rafgreining er orkufrek og byggir á raforkunotkun, en að loknu framleiðsluferlinu er vetninu safnað saman og geymt á þrýstihylkjum sem orkuberi rafmagns í sama skilningi og rafhlöður. Þar sem rafmagn á Íslandi er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum þá er vetni framleitt hér einnig endurnýjanlegt.
Vetnisbílar eru líkir rafbílum að því leyti að þeir innihalda rafmótor sem knýr bílinn áfram. Í vetnisbíl er rafgeyminum sem orkubera skipt út fyrir vetnisþrýstihylki og við bætist efnarafall. Í efnarafal er rafmagn og vatn framleitt úr efnaorku sem losnar við efnahvarf vetnis og súrefnis. Raunar er hægt að brenna vetninu í sprengihreyflum líkt og bensíni, en vegna þess hve dýrt er að framleiða vetnið er yfirleitt horft til efnarafala sem hafa um 2,5 sinnum betri orkunýtingu en sprengihreyflar.
Erlendir bílaframleiðendur hafa mikla trú á vetni til frambúðar
Erlendir bílaframleiðendur hafa mikla trú á vetni til frambúðar og hafa nokkrir þeirra hafið samstarf á þessu sviði. Daimler Truck AG og Volvo Group eru í samstarfi um framleiðslu á eldsneytiskerfi fyrir ökutæki sem nota vetni sem eldsneyti. Eldsneytiskerfið er fyrst og fremst hugsað fyrir stóra vetnisknúna atvinnubíla sem ætlaðir eru til lengri ferðalaga. Þessir tveir stóru bílaframleiðendur hafa stofnað til samstarfs sem kallast cellcentric í kringum þessa þróunarvinnu.
Sérfræðingar eru þess fullvissir um að þegar eftirspurn eftir vetni eykst og smásölumarkaðir þróast þá fari hleðslustöðvar fyrir vetni einnig í fjöldaframleiðslu
sem mun lækka dreifingarkostnað og verð. Í umfjöllun í FÍB-blaðinu um vetnisknúnar bifreiðar á síðasta ári kom fram að mikil þróun er í framleiðslu efnarafala og hefur Toyota gefið út að bílar með efnarafala verði orðnir ódýrari en bæði rafhlöðu- og brennsluvélabílar árið 2025 þrátt fyrir miklar framfarir í þróun drifrafhlaðna.
Vetnisbílar hafa átt undir högg að sækja
Þá ætlar suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai ekki að láta deigan síga í framleiðslu á vetnisbílum á næstu árum ef marka má markmið fyrirtækisins og í yfirlýsingu skömmu fyrir síðustu áramót. Þar segir að vetnisbílar hafi átt undir högg að sækja á síðustu árum en markmið Hyundai er að snúa þeirri þróun við. Hyundai hyggst framleiða 700 þúsund vetnisbíla á næstu tíu árum.
Forvígismenn Hyundai segjast hafa mikla trú á vetnisbílum sem eru um margt hagstæðari í rekstri en venjulegur rafbíll. Fyrirtækið segir fjárfestinguna gríðarlega mikla en með bjartsýnina að vopni er hægt að komast langt. Kínversk stjórnvöld hafa uppi áform að styðja enn frekar við framleiðslu á vetnisbílum en gert hefur verið fram til þessa. Innleiða á nýja stefna sem hefur það að markmiði að hvetja neytendur til kaupa á þessum bílum. Kína er langstærsti markaðurinn fyrir nýorku-, tengiltvinn- og vetniseldsneytisrafbíla.
Mynd: Frá opnun fyrstu fjölorkustöðvar landsins við Miklubraut fyrir tveimur árum síðan.