VW Up

Volkswagen frumsýnir á Frankfurt bílasýningunni í sept. nk. nýjan bíl sem fjöldaframleiðsla er að hefjast á. Bíllinn er smábíllinn Up, sem verið hefur á döfinni um allnokkurt skeið.

VW Up er smábíll sem einkum er hugsaður til notkunar í þéttbýli. Hann verður ódýr, sparneytinn en engu að síður með góðum öryggisbúnaði og sá fyrsti í flokki minnstu smábíla sem verður með ESC skrikvörn og sjálfvirkan búnað, sem nauðhemlar bílnum ef árekstur er yfirvofandi. Síðarnefndi búnaðurinn nefnist City Safety eða City

http://www.fib.is/myndir/Up-3.jpg
VW Up - allstór innan en lítill að utan.
http://www.fib.is/myndir/Up-2.jpg
Mælaborðið ber smá svip af VW 1303.
http://www.fib.is/myndir/Up-4.jpg
Smekkleg innrétting.

Emergency Breaking. Bæði ESC og þessi búnaður verður staðalbúnaður í öllum gerðum VW Up. Bíllinn kemur á almennan bílamarkað í Evrópu strax í lok ársins.

Sú vél sem verður í VW Up, a.m.k. í fyrstunni verður þriggja strokka 1000 rúmsm bensínvél.  Vélin verður í boði í þremur útgáfum: sú fyrsta verður 60 hestafla og bensíneyðsla hennar verður 4,2 lítrar á hundraðið. Þá fæst hún 75 ha og sem þá eyðir 4,3 l á hundraðið. Loks fæst hún sem gasvél (jarðgas og metangas). Gasútgáfan verður 68 ha og eyðir 3,2 kg á hundraðið. Þessi byrjunarvél verður ekki með neinum aflaukabúnaði eins og túrbínu.  CO2 útblástur allra útgáfa vélarinnar verður vel undir 100 grömmum á kílómetrann. Túrbínuvélar verða fáanlegar síðar og sömuleiðis dísilvélar og rafmótor sem boðaður er 2013.

Það var á Frankfurt bílasýningunni árið 2007 sem  hugmyndarbíllinn VW Up var fyrst sýndur. Samhliða honum hafa hönnuðir VW verið að þróa lítið „rúgbrauð“ sem fengið hefur gerðarheitið Bulli sem var gælunafn Þjóðverja á fyrsta VW rúgbrauðinu. Vinnuheiti þessa nýja rúgbrauðs var lengstum Space-Up. Sá bíll er líka á leið í fjöldaframleiðslu og á markað síðla á næsta ári eða á fyrri hluta árs 2013.  En Up línan verður ekki bara undir merkjum Volkswagen, heldur líka undir merkjum dótturfélaganna Skoda í Tékklandi sem Skoda City og Seat á Spáni sem Seat Mii.

Í fyrstunni verður VW Up þriggja dyra en fimm dyra útgáfur koma síðar. Öll hönnun bílsins er til að fá fram sem mesta nýtingu á innanrými og því kann bíllinn að sýnast dálítið ferkantaður enda er ekki verið að bruðla neitt með krúsíldúllum og slíku. En enda þótt hann sé einfaldur á að líta og verði ekki dýr bíll er ekkert sérstaklega verið að spara til hans eins og reyndar má ætla af þeim öryggisbúnaði sem verður staðalbúnaður. Up er 3,54 m að lengd, breiddin er 1,64 og hæðin 1,48 m.  Til samanburðar þá er lengd/breidd/hæð  VW Polo: 3,99/1,70/1,49
 - Toyota IQ: 2,99/1,68/1,50
 - Toyota Aygo: 3,41/1,61/1,47.

VW Up er nýhönnun frá grunni og byggður á algerlega nýrri grunnplötu eða undirvagni sem kallast MOB og vél og gírkassi er hvorttveggja nýtt en ekki sótt í aðrar gerðir. Lengd milli hjóla ( 2,42 m) er hlutfallslega mikil miðað við heildarlengd bílsins. Hún er höfð eins mikil og mögulegt er til að nýta rýmið sem allra best og hafa bílinn eins stóran að innan og lítinn að utan, sem kostur er. Í þessum tilgangi er vatnskassinn í bílnum hafður undir vélinni í stað þess að setja hann fremst í vélarhúsið.

5-gíra handskiptur gírkassi verður staðalbúnaður. Í boði sem aukabúnaður verður  tölvustýrð skipting við þennan gírkassa sem kallast ASG. DSG gírkassi (með tveimur kúplingum) virðist ekki verða í boði samkvæmt fyrstu fréttum. Gírkassinn er glænýr og í honum eru hreyfanlegir hlutir 20 prósent færri en í öðrum fimm gíra gírkössum hingað til. 

Þótt ytri mál bílsins séu að sönnu ekki stór, er farangursrýmið samt furðu mikið eða 251 lítri. Með niðurfellt aftursætið verður tiltækt flutningsrými 951 lítri. Innréttingar virðast vandaðar, einfaldar, smekklegar og praktískar ef marka má myndir og bera dálítinn keim af fortíðarhyggju. Mælar og mælaborð í heild er nefnilega með smá svip af mælaborðinu sem var í 1303 bjöllunni frá VW. Stjórn útvarps/hljómtækja, síma og leiðsögukerfis er fyrirkomið á einum og sama skjánum fyrir miðju mælaborðinu.  Þetta kerfi er frá GPS tækjaframleiðanda sem heitir Navigon og kallast PID (Personal Infotainment Device). Sjálfan skjáinn má svo taka með sér í vasann þegar bíllinn er yfirgefinn á stæði. Up verður fáanlegur á helstu bílamörkuðum Evrópu strax í desember nk.  Miðað við uppgefið verð við verksmyðjudyr í Þýskalandi gæti líklegt verð hans á Íslandi orðið í kring um 2,3 milljónir