10 nýir 5 stjörnu bílar
Í dag eru birt úrslit í nýafstaðinni prófanalotu á árekstrarþoli bíla. Þrátt fyrir hertar kröfur hafa aldrei fleiri bílar komist í hinn eftirsóknarverða fimm stjörnu flokk, en allir tíu bílarnir sem prófaðir voru að þessu sinni reyndust fimm stjörnu bílar. Þeirra á meðal er rafbíllinn (með bensínrafstöð) Opel Ampera sem er að koma á almennan markað í Evrópu ásamt systurbílnum Chevrolet Volt.
Chevrolet frá Kóreu (áður Daewoo) hefur til þessa ekki skorað hátt í prófunum EuroNCAP en nú ber allt annað og betra við: Chevrolet Aveo fær að þessu sinni fær fimm stjörnur. Fyrirrennari hans sem prófaður var árið 2006 kom hins vegar mjög illa út þá og hlaut einungis tvær stjörnur með naumindum. Þá sáu margir bifreiðaeigendaklúbbanna í Evrópu ástæðu til að vara félagsmenn sína við því að kaupa bílinn.
Af þessu má ráða hversu mjög menn hafa tekið sig á í þessum efnum og hverju starf EuroNCAP hefur komið til leiðar. Svipaða sögu er að segja af kóreska smábílnum Kia Picanto. Fyrsta kynslóð hans kom illa út í árekstursprófun en nú er nýjasta kynslóð þessa ódýra smábíls kominn í fimm stjörnu flokkinn. Picanto er einn ódýrasti bíllinn sem þangað hefur nokkru sinni náð.
Að vísu ætlast Kia til þess að staðalútgáfa eða grunngerð Picanto sé í boði í Evrópu án ESC stöðugleikakerfis. Þannig búinn er hann fjögurra stjörnu bíll vegna þess að ESC stöðugleikakerfið er skilyrði þess að bíll geti yfirhöfuð hlotið fimmtu stjörnuna. Innflytjendur bílsins í mörgum löndum Evrópu afhenda hann hins vegar ekki án ESC. Þar sem þannig háttar er bíllinn því í fimm stjörnu flokknum.
Michiel van Ratingen, framkvæmdastjóri Euro NCAP gagnrýnir Kia fyrir þetta. „ESC búnaðurinn hefur löngu sannað mikilvægi sitt og og leitt til setningar nýrrar löggjafar sem senn tekur gildi og sem gerir ESC búnað að skyldubúnaði í öllum nýjum bílum í Evrópu. Á árinu 2011 ættu því neytendur ekki að þurfa að fara í grafgötur með það að ESC búnaðurinn sé til staðar í öllum nýjum bílum, óháð stærð þeirra eða í hvaða verðflokki þeir kunna að vera,“ segir van Ratinger.
Hér má sjá á myndrænu formi hvernig hver og einn af bílunum tíu stóðu sig í árekstursprófinu.