100.000 rafbílar
Renault-Nissan samsteypan hefur náð þeim merka áfanga að hafa framleitt og selt 100 þúsund rafbíla. Það eru fleiri rafbílar en allir aðrir bílaframleiðendur hafa náð samanlagt að framleiða til þessa. Sá hundrað þúsundasti var afhentur nýlega og kaupandi hans er bandarísk hákólastúdína sem heitir Allison Howard í Atlanta í Georgíu (sjá mynd). Rafbílar frá Renault og Nissan teljast nú hafa ekið samtals 841 milljón kílómetra án útblásturs eða sem svarar til rúmlega 20 þúsund hringferða umhverfis jörðina. Í þessum akstri hafa sparast 53 milljónir lítra af bensíni og dísilolíu sem hefðu skilað 124 milljón kílóum af koltvísýringi út í andrúmsloftið.
-Tími hinna útblásturslausu farartækja er runninn upp, sagði Carlos Ghosn forstjóri Renault-Nissan samsteypunnar þegar hann afhenti hundrað þúsundasta rafbílinn. –Við trúum því að eftirspurnin eftir mengunarlausum bílum muni halda áfram að vaxa í takti við bætta og traustari innviðir fyrir rafbíla. Við stöndum 100 prósent við langtímaáætlanir okkar um að halda áfram að þróa mengunarlausa bíla og samgöngutækni.
Fyrsta rafbílinn frá Renault-Nissan keypti verkfræðingurinn Olivier Chalouhi í Silicondal í Kaliforníu í desember árið 2010. Bíllinn var af gerðinni Nissan Leaf. Allison Howard sem á hundrað þúsundasta rafbílinn frá Renault-Nissan, er hæstánægð með nýja bílinn sinn og segir hann dásamlegan í akstri. Þá sé hann miklu ódýrari í rekstri en bensínbíll og það eitt geri henni, námsmanninum, það fjárhagslega mögulegt að reka eigin bíl.
Alls hafa rúmlega 71.000 Nissan Leaf bílar selst og er Leaf því mest seldi rafmagnsbíll sögunnar. Um það bil helmingur allra hreinna rafbíla í notkun í heiminum í dag eru af gerðinni Nissan Leaf. Nissan Leaf bílar eru flestir í notkun í Bandaríkjunum eða um 30 þúsund bílar. Næst flestir eru þeir í Japan, 28 þúsund og 12 þúsund í Evrópu. Í Noregi er Nissan Leaf í hópi 10 söluhæstu bílanna en frá 2011 hafa 4.600 eintök selst þar.