108 þúsund ökutæki fóru daglega um Hringveginn í júlímánuði
Umferðin í júlí á Hringveginum jókst um 7,3 prósent sem er mikil aukning en heldur minni en verið hefur síðustu mánuði. Þannig að heldur dregur úr aukningarhraðanum.
Frá árinu 2007 hefur umferðin aukist um heil 30 prósent á Hringveginum. Búast má við um 9 prósenta aukningu í ár sem er heldur minna en aukningin varð í fyrra. Þetta kemur fram í gögnum frá Vegagerðin.
Umferð jókst um 7,3% á milli júlí mánaða 2016 og 2017. Þó að aukningin sé ærin þá er þetta er minnsta aukning, milli mánaða, það sem af er ári og fara þarf aftur til ársins 2014 til að finna minni aukningu milli júlí mánaða.
Mest jókst umferðin um Norðurland eða um 12% en minnst jókst umferðin um Suðurland eða um 3,8%.
Umferðin hefur aldrei mælst meiri á Hringveginum í nokkrum mánuði frá upphafi mælinga en að meðaltali fóru um 108 þúsund ökutæki daglega um lykilsniðin 16. Til samanburðar fóru 82 þúsund ökutæki um þessi sömu mælisnið, fyrir 10 árum, árið 2007.
Umferðin á Hringveginum hefur því vaxið um rúmlega 30% frá árinu 2007, þrátt fyrir að eitt efnahagshrun hafi átt sér stað á tímabilinu.
Umferð hefur nú aukist um 11,4%, frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þessu aukning er rétt rúmlega einu prósentustigi minni miðað við sama tíma á síðasta ári, en þá hafði umferðin aukist um 12,6% miðað við árið á undan.
Umferðin hefur vaxið mest, frá áramótum, um Austurland eða um 16,3% en minnstur hefur vöxturinn verið um Vesturland eða 9,2%.
Umferð eftir vikudögum
Það sem af er ári hefur umferð nú aukist alla vikudaga miðað síðasta ár. Mest hefur umferðin aukist á föstudögum eða um 12,6% sem jafnframt er umferðarmesti dagur vikunnar.
Minnst hefur umferðin hins vegar aukist á mánudögum. Minnst er hins vegar ekið á þriðjudögum, sjónarmuni minna en á mánudögum.
Horfur út árið 2017
Nú stefnir í að umferðin geti aukist um 9% milli áranna 2016 og 2017 sem er, ef af verður, heldur minni aukning en varð á síðasta ári en þá jókst umferðin um rúmlega 13%, fyrir lykilsniðin 16.