12 létust í íslensku umferðinni 2011

Alls létust 12 manns  í umferðarslysum á Íslandi á nýliðnu ári.  Árið 2010 létust átta, árið 2009 létust 17, árið 2008 létust 12 og árið 2007 létust 15.

Ekkert banaslys varð á sjó á liðnu ári. Frá því skráning hófst hefur það gerst aðeins einu sinni áður - árið 2008. Hvað varðar banaslys í umferðinni virðumst við stefna í rétta átt. Sem dæmi um það má nefna árið 2006. Þá lét 31 lífið í umferðarslysum á landinu.

Danir virðast sömuleiðis stefna í rétta átt í þessum efnum því að banaslysum hefur jafnt og þétt fækkað undanfarin ár. Samkvæmt bráðabirgðatölum þá létust 213 í dönsku umferðinni árið 2011 sem er 16% fækkun miðað við árið á undan sem reyndar var metár þá að því er varðar fá banaslys.

Banaslys í danskri umferð í fyrra eru ámóta mörg og urðu á fjórða áratugi síðustu aldar þegar bílar voru sárafáir og aðallega leiktæki í eigu fámennrar yfirstéttar. Reyndar leit út fyrir að dauðaslysin í Danmörku í fyrra yrðu enn færri. Slæm slysaalda í jólamánuðinum þar sem alls sex manneskjur týndu lífi gerði þær vonir að engu.

Árið 1971 var versta slysaár sem sögur fara af  í umferðinni í Danmörku. Þá fórust hvorki meira né minna en 1.213 manns eða þúsund fleiri en á síðasta ári. Munurinn milli ársins 1971 og 2011 er 82 prósent.