1.200 rafbílar nýskráðir frá áramótum
Nýskráningum rafmagnsbíla það sem af er árinu 2018 hefur fjölgað um meira en helming frá sama tímabili 2017. Samkvæmt upplýsingum á vef Orkuseturs var 781 rafbíll tekinn á skrá fimm fyrstu mánuði 2017. Frá byrjun árs 2018 eru þeir hinsvegar orðnir 1.200. Fjölgunin er 54%.
Í vikunni var fyrsta hlaðan opnuð á Snæfellsnesi. Það var Sandarinn Þröstur Kristófersson sem fékk sér fyrstu hleðsluna úr nýrri hraðhleðslu ON í Ólafsvík. Hlaðan stendur við þjónustustöð Orkunnar og er fyrsta hlaða ON á Snæfellsnesi og fyrsta hraðhleðslan á Nesinu.
Þröstur býr á Hellissandi og sækir vinnu til Ólafsvíkur. Hann er nýbúinn að fá sér tengiltvinnbíl og á von á því að geta nú ferðast til vinnu og frá á rafmagninu einu með öllum þeim sparnaði sem því fylgir, fyrir budduna og umhverfið. Það eru um 10 kílómetrar á milli byggðakjarnanna.
Viðstödd þegar Þröstur tók þessa 35. hlöðu ON í notkun voru þau Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður einstaklingsmarkaða ON, og Þórður Tryggvi Stefánsson, sem rekur Orkustöðina í Ólafsvík.
ON hefur varðað hringveginn hlöðum með hraðhleðslum og nú er unnið að því að víkka út net þessara mikilvægu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum. Á dögunum var hlaða opnuð á Sauðárkróki, á Ólafsvík í dag og næstu hlöður verða á Ísafirði og á Húsavík. Samhliða er unnið að því að þétta netið á Höfuðborgarsvæðinu.