13 hafa látist í umferðarslysum
Það sem af er árinu hafa 13 látið lífið í umferðarslysum sem er það mesta um sjö ára skeið. Síðasta banaslysið átti sér stað um helgina þegar ekið var á gangandi vegfaranda nærri gatnamótum Sæbrautar og Holtavegar.
Bráðabirgðagöngubrú verður reist yfir Sæbraut og Vegagerðin á von á að hún verði tilbúin í haust. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir mikilvægt að bæta öryggi gangandi vegfarenda milli hverfa um þessa fjölförnu umferðaræð.
Göngubrú yfir Sæbraut, sem ætlað er að bæta umferðaröryggi verulega, átti að vera tilbúin í síðasta lagi í sumar. Framkvæmdir töfðust vegna of hás tilboðs í verkið. Íbúar í Vogahverfi hafa ítrekað gert athugasemdir við hættuleg gatnamót við Sæbraut þar sem banaslys varð. Foreldrar hafa áhyggjur af börnum sem sækja skóla og frístundir yfir götuna og skora á borgarstjórn að kynna sér aðstæður.
Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, G. Pétur Matthíasson, sagði í kvöldfréttum á RÚV í gærkvöld að unnið væri að bráðabirgðalausn fyrir þessi tilteknu gatnamót.
„Það er erfitt að eiga við þessa miklu umferð en við viljum náttúrulega tryggja gangandi vegfarendum leið þarna yfir.“
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir það mikið högg. Bergþóra segir í samtali við RÚV að full ástæða sé til að skoða hvort það séu innviðir, eða annað, sem þarfnist skoðunar. Að sögn Bergþóru kemur umferðaröryggisráð saman í haust þar sem gefst tækifæri til að horfa á þetta svona í víðu samhengi og hvaða þættir spila saman. Hún er gagnrýnin á hversu illa hefur verið staðið að fjármögnun viðhalds á samgöngukerfinu.