130 ökutæki fengu akstursbann eftir að nýjar reglur tóku gildi
Eftir að nýja skoðunarhandbókin tók gildi 1. mars sl.voru 130 ökutæki sett í akstursbann í mars mánuði einum að aflokinni lögbundinni skoðun samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu og fram kemur í Morgunblaðinu. Þetta er nærri tvöföldun milli ára en 64 ökutæki voru kyrrsett í mars í fyrra. Harðara er tekið á ýmsum atriðum við skoðun bíla en verið hefur.
Hlutfall bifreiða sem lenda í akstursbanni er þó mjög lágt af öllum þeim ökutækjum sem skoðuð eru eða 0,7%. Rúm 23% ökutækja fengu grænan miða í lögbundinni ökutækjaskoðun í mars sl. Hlutfallið hækkar lítillega á milli ára. Í mars 2022 var hlutfallið 21%. Ekki er um marktæka breytingu að ræða en hlutfallið hefur sveiflast nokkuð og verið á bilinu 20-24% á undanförnum árum.
Hert hefur verið á kröfum um virkni handbremsu og dekk bílsins mega ekki vera léleg svo eitthvað sé nefnt. Ef stöðuhemlar á stærri ökutækjum eru óvirkir verður notkun þeirra bönnuð umsvifalaust. Ef einhver ljós á bílum eru óvirk er bíllinn þegar í stað boðaður í endurskoðun í stað þess að eigendum þeirra sé treyst til að láta skipta um peru eins og verið hefur.
Ef hemlaljós virka ekki verður bíllinn settur í akstursbann. Íslenski bílaflotinn hefur verið að eldast frá árinu 2000. Þá var meðalaldur bifreiða tæp níu ár. Meðalaldur flotans var hæstur árið 2021 eða rúm 13 ár og lækkaði örlítið 2022. Endurnýjun hefur því verið hæg á seinni árum.