1.400 Mitsubishi á botni Norðursjávar
Bílaferjan Baltic Ace (sjá mynd) sem sökk á Norðursjó eftir árekstur við gámaskipið Corvus J aðfararnótt sl. miðvikudags, var með 1.400 nýja Mitsubishi bíla sem voru á leið til kaupenda í Finnlandi. Bílarnir hvíla nú í votri gröf Norðurjávarins milli Hollands og Bretlands ásamt mjög miklu af öðru góssi sem þarna hefur glatast í rás tímans.
Bílaferjan Baltic Ace var á leið frá Belgíu til Finnlands þegar skipin rákust saman á þessari fjölförnu siglingaleið. Bílaferjan sökk í kjölfar árekstursins og 18 af 24 áhafnarmeðlimum hennar björguðust en sjö er saknað og þeir nú taldir af. Vont veður var og kröpp alda þegar slysið varð. Mjög umfangsmikil björgunaraðgerð var gangsett eftir áreksturinn og bæði skip og þyrlur leituðu að skipbrotsmönnum við erfiðar aðstæður.
Gámaskipið Corvus J. skemmdist furðu lítið í árekstrinum og ekki fer sögum af meiðslum hjá áhafnarmeðlimum þess.