15 króna bensínlækkun í morgun
N-1 lækkaði bensínlítrann í morgun um 15 krónur. Lækkunin er sértilboð sem stendur fram til miðnættis í nótt. Þetta sértilboð var auglýst í Morgunblaðinu í morgun.
Atlantsolía og Orkan lækkuðu fljótlega á eftir um sömu krónutölu og nokkru síðar Olís einnig. Algengt verð á bensínlítranum eftir þessa hressilegu lækkun er rúmar 232 krónur.
FÍB hefur gagnrýnt olíufélögin undanfarið fyrir hversu álagning þeirra á bílaeldsneytið er há um þessar mundir. Það verður því forvitnilegt að sjá hversu mikið eldsneytið hækkar eftir miðnættið þegar þetta sértilboð, sem N1 átti frumkvæðið að, rennur út.
En er á meðan er og 15 krónur af hverjum lítra er ágætis afsláttur. Það er því ekki óvitlaust að fylla á tankinn í dag.