15 milljón Volvobílar á morgun

http://www.fib.is/myndir/VolvoC70.jpg
Volvo númer 15 milljón er opinn C70.

Fyrsti Volvo bíllinn kom út úr verksmiðjunni í Uddevalla við Gautaborg þann 14. apríl 1927. Gerðarheiti hans var ÖV4. ÖV er skammstöfun fyrir það sem á íslensku útleggst „opinn bíll.“ Talan 4 segir að vélin hafi verið fjögurra strokka. http://www.fib.is/myndir/VolvoOV4.jpg

Síðan ÖV4 kom fram hefur margt gerst í sögu þessarar merku bílaverksmiðju og í gær, 20. febrúar rann 15 milljónasti Volvóinn af færibandinu í Uddevalla. Það er líka opinn bíll eins og sá fyrsti – af gerðinni C70 en að vísu ekki alveg opinn því að hann er með niðurfellanlegu stálþaki. Þakið er í þrennu lagi og rennur niður í skottið þegar ýtt er á takka.

Á fyrsta starfsári Volvo seldust 297 bílar. Framleiðslan óx hægt framanaf en fyrirtækið lifði af hremmingar heimskreppunar sem hófst með verðbréfahruninu á Wall Street 1929 og heimsstyrjaldarárin 1939 til 1945. Alls tók það Volvo 23 ár að ná því að byggja fyrstu 100 þúsund bílana. Í dag byggir 100 þúsund bíla á um það bil hverjum þremur mánuðum.
Volvo hefur ekki verið né er stór bílaframleiðandi. Megináherslan hefur aldrei verið á fjölda framleiddra bíla heldur varð hún strax í upphafi á gæði, styrkleika, öryggi og endingu. Frá því um 1970 hefur mikil áhersla verið á umhverfismál og umhverfisvernd í starfsemi Volvo.

Í öryggismálum hefur Volvo verið brautryðjandi. Þriggja punkta öryggisbelti komu fyrst fram í Volvo bílum og urðu staðalbúnaður í þeim árið 1959. Árið 1976 varð þrívirkur hvarfahreinsibúnaður með svonefndri Lamda-stýringu staðalbúnaður í Volvo bílum.
Vinsælasti Volvobíll nokkru sinni er Volvo 200 sem framleiddur var í tæplega þremur milljónum eintaka á árunum 1974 til 1993.

http://www.fib.is/myndir/VolvoP1800.jpgSportbíllinn Volvo P1800 er sennilega frægasta gerð Volvo. Þetta var bíll „dýrlingsins“ sem Roger Moore lék í samnefndri sjónvarpsþáttaröð upp úr miðri síðustu öld. Eitt eintak þessa bíls er sá sem hér sést ásamt eiganda sínum, Irv Gordon. Þetta er sá bíll sem hefur lagt fleiri ekna kílómetra að baki en nokkur annar bíll í veröldinni. Irv Gordon eignaðist bílinn árið 1966 og árið 2002 hafði hann ekið bílnum rúmlega 3,2 milljónir kílómetra. Þá sagðist hann búast við að aka honum minnst eina og hálfa milljón kílómetra til viðbótar.