15% samdráttur í bílasölu í USA í ágúst

http://www.fib.is/myndir/HummerH2.jpg
Hummer - næstum hættur að seljast.

Sala nýrra bíla í Bandaríkjunum í ágúst varð 15 prósentum minni en í sama mánuði í fyrra. Alls seldust 1,25 milljón bílar í ár. Söluhorfur fyrir það sem eftir er af árinu eru ekki bjartar og ekki búist við að ástandið skáni neitt þá mánuði sem eftir eru af árinu.

Eftirspurn eftir nýjum bílum náði lágmarki þegar í júlímánuði sl. að því er efnahagsfréttaskýrandi á vefnum Edmunds.com segir. Þá var að hans sögn brugðist við með því að bjóða enn hagstæðari lán og sérkjör af ýmsu tagi við kaup á nýjum bílum auk þess sem eldsneytisverð tók að lækka. Við þetta hafi salan glæðst lítillega í ágústmánuði þannig að útkoman varð þó skárri en leit út fyrir í júlí.

Sex stærstu bílaframleiðendurnir í Bandaríkjunum eru GM, Ford, Chrysler, Toyota, Honda og Nissan og varð samdráttur hjá þeim öllum nema einum, Nissan. Hjá Nissan varð salan í ágúst í ár 13,6 prósentum meiri en í ágúst í fyrra. Verst gekk hjá Chrysler og þar varð salan 34 prósent minni en á sama tíma í fyrra. Næst verst gekk hjá Ford. Þar varð samdrátturinn 26,6 prósent og 20,4 prósent hjá General Motors.

Sölusamdrátturinn var mestur í stórum jeppum í Bandaríkjunum. Hjá GM er Hummer það vörumerki sem verst gekk með. Salan á Hummer dróst saman um 46 prósent og vörumerkið og framleiðslan er nú til sölu en enginn kaupandi finnst. En hjá GM ríkti vissulega ekki algert svartnætti því að Chevrolet merkið gekk ágætlega og umtalsverð aukning varð í sölu á Chevrolet Malibu sem er meðalstór fólksbíll á bandarískan mælikvarða. Þá seldust þeir GM bílar sem byggðir eru á svonefdri Lambda-botnplötu ágætlega einnig. Meðal þeirra eru jepplingurinn Buick Enclave. Sala á honum jókst um 60 prósent.
http://www.fib.is/myndir/August%20Big%20Six%20sales.jpg