160 myndatökustaði og 380 myndavélar þarf fyrir vegtolla á höfuðborgarsvæðinu
FÍB hefur reiknað lauslega út að innheimta vegtolla á höfuðborgarsvæðinu kalli á myndatökuvélar á 160 gatnamótum stofnbrauta ef gjaldtakan á að verða sanngjörn og skilvirk.
Rætt hefur verið að bíleigendur borgi vegtolla í samræmi við akstur á stofnbrautunum. Vegna hinna fjölmörgu akstursleiða inn á stofnbrautirnar er ekki um annað að ræða en hafa vegtollamyndavélar við öll gatnamótin. Að öðrum kosti er hætt við að verulegt ójafnvægi verði í greiðslum vegfarenda, allt eftir því hvar þeir koma inn á stofnbrautirnar og fara út af þeim.
Á gatnamótunum þurfa að vera minnst 2 vegtollamyndavélar til að ná umferð í báðar áttir. Á gatnamótum með margar akreinar þurfa að vera fleiri myndavélar. Alls má því gera ráð fyrir að minnst 380 myndavélar þurfi til að greina ferðir fyrir innheimtu vegtollanna. Á mörgum stöðum þyrfti að reisa slár yfir stofnbrautirnar til að koma myndavélunum fyrir þannig að þær geti lesið á bílnúmerin.
Upplýsingar liggja ekki fyrir um hver kostnaður gæti orðið af uppsetningu og rekstri vegtollakerfis af þessari stærðargráðu. Í þessu samhengi má þó líta til kostnaðar við uppsetningu og rekstur slíkra kerfa í Stokkhólmi, Gautaborg og London. Í þessum þremur borgum hafa vegtollar verið lagðir á akstur inn í miðborgirnar til að draga úr umferð þangað, en ekki allt stofnbrautakerfið.
Fjárfestingar- og rekstrarkostnaður vegtollakerfisins í kringum kjarna Stokkhólms fyrsta árið (2007-2008) í rekstri var um 200 milljónir evra eða um 27 milljarðar króna.
Árið 2013 var rekstrarkostnaður þrengslaskattkerfanna í Stokkhólmi og Gautaborg 24 milljónir evra eða ríflega 3,2 milljarðar íslenskra króna.
Frá apríl 2015 til mars 2016 var rekstrarkostnaður þrengslaskattkerfisins í kringum miðborg Lundúna 90,1 milljón punda, eða um 14 milljarðar króna. Heildartekjurnar í London voru 258,4 milljónir punda á sama tíma. Reksturskostnaðurinn við Lundúnakerfið var því 35% af tekjunum. Á fyrsta ári innheimtunnar í Lundúnum, 2004, fóru 76% af tekjunum í rekstrarkostnað.