175 nýjar „Súkkur“

Höldur-Bílaleiga Akureyrar og Suzuki bílaumboðið á Íslandi hafa skrifað undir kaup bílaleigunnar á að minnsta kosti 175 nýjum bílum af tegundunum Suzuki Swift og Suzuki Grand Vitara og hugsanlega verður bílunum fjölgað eitthvað þegar nær dregur sumri. 

Í frétt frá Suzuki bílaumboðinu segir að Bílaleiga Akureyrar  sé stærsta bílaleiga landsins og muni verða með uppundir 2.300  bíla í rekstri  í sumar. 

http://www.fib.is/myndir/Suzuki-kallar.jpg
Frá vinstri: Bergþór Karlsson frá BA, Úlfar
Hinriksson Suzuki, Steingrímur Birgisson BA

Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar segir að fyrirtæki hans hafi átt  mikil og ánægjuleg  viðskipti við Suzuki umboðið undanfarin ár, bílarnir hafi reynst vel og viðskiptavinirnir ánægðir með þá. Því séu þessi stórinnkaup nú gleðiefni fyrir komandi ferðamannavertíð sem stefni í að verða nokkuð góð.

Úlfar Hinriksson forstjóri Suzuki bíla hf sagði við undirritun samninga fyrirtækjanna að Suzuki og Bílaleiga Akureyrar hefðu átt góð og ánægjuleg viðskipti í yfir 20 ár og þau væru nokkiur þáttur í því að Suzuki Swift hefði orðið söluhæsti fólksbíllinn á Íslandi árið 2009 og Suzuki Grand Vitara söluhæsti jeppinn.

Bílaleiga Akureyrar er með 18 afgreiðslur á 14 stöðum  víðsvegar um landið,  stærstu afgreiðslurnar eru í Reykjavík og Keflavík en höfuðstöðvarnar eru á Akureyri. Hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 100 manns.