20 ár frá sögulokum
Þann 5. maí nk. verða 20 ár liðin frá því að hætt var að framleiða söluhæsta bílinn frá Volvo til þessa; Volvo 240. 240 línan var framleidd í 19 ár í tæplega 2,9 milljónum eintaka.
Fyrst þegar bíllinn kom fram urðu ýmsir til að gagnrýna hann fyrir hversu kassalaga og leiðinlega ljótur hann væri. Ekki hafa nú allir verið sammála þeim dómi því að aldrei
reyndust vera vandræði með að selja bílinn. Hann þótti strax frá upphafi vera fyrirmynd annarra bíla hvað varðaði öryggi og endingu og í Bandaríkjunum varð hann fljótt uppáhaldsbíll millistéttar-fjölskyldufólks í góðum efnum. Hið sama gerðist svo í Evrópu á síðustu framleiðsluárunum. Þá allt í einu varð Volvo 240 langbakur sá bíll sem flestir vel stæðir ungir fjölskyldumenn, sérstaklega á Ítalíu, hreinlega töldu sig verða að eiga. Og meira að segja náði þessi millistéttarbíll að verða sigurvegari einu sinni í Evrópurallinu í flokki ferðabíla áður en framleiðslu á honum var hætt í maímánuði 1993.
Volvo 240 kom fyrst fram í ágústmánuði 1974 og var beint og eðlilegt framhald af Volvo 140 línunni sem á sínum tíma hafði leyst Volvo Amazon af hólmi. Enda þótt 240 bílarnir væru ekki ólíkur 140 línunni við fyrstu sýn, voru þetta ólíkir bílar í tæknilegu tilliti. 140 línan hafði verið byggð að mestu á sömu tækni og gamli Amazon bíllinn en í 240 línunni var hins vegar flest nýtt, eins og vélar, gírkassar, hjólabúnaður og yfirbygging, en við hönnun hennar hafði sérstaklega verið hugað að öryggi fólksins í bílnum. Það voru einkum öryggisþættirnir sem þóttu eiga sinn þátt í útliti bílsins, eins og þykkir og miklir stuðarar sem virtust særa fegurðarsmekk sumra. Það kom þó ekki í veg fyrir að bílnum var vel tekið og víst er það að Volvo 240 hækkaði umtalsvert öryggisstaðla annarra bílaframleiðenda.
Svipað og fyrirrennarinn Volvo 140 hafði fengist í sérstakri viðhafnarútgáfu með sex strokka vél, kom fljótlega fram sams konar viðhafnarútgáfa sem nú nefndist 260. Bæði 240 og 260 línurnar fengust fljótlega sem langbakar eða herragarðsvagnar eins og slíkir bílar kallast á Norðurlöndunum. Langbakurinn varð fljótlega enn eftirsóttari en hinn hefðbundni stallbakur og skapaði sér þá stöðu að verða eiginlega hinn eini sanni skutbíll í hugum æði margra.
Öryggið
Eitt höfuðmarkmið Volvo í sambandi við hönnun og byggingu 240 línunnar var öryggið. Á hönnunartímanum var fjöldi frumgerða bílsins eyðilagðar í árekstursprófum með þeim árangri að þegar 240 línan var komin í fjöldaframleiðslu var þarna fram kominn öruggasti bíll síns tíma. Þetta var svo staðfest í árekstursprófunum bandarísku umferðaröryggisstofnunarinna NHTSA á 240 bílnum og fjölda annarra bíla á bandaríska bílamarkaðinum. Í þeim kom í ljós að Volvo 240 hafði algera yfirburði hvað varðaði öryggi fólksins í bílnum. Í framhaldi af þessum prófunum samdi NHTSA ný lög og reglur um öryggi bíla sem allar miðuðust við Volvo 240. Þessi lög og reglur tóku síðan gildi og samkvæmt þeim urðu allir nýir bílar að uppfylla „Volvo öryggisstaðalinn“ til að geta fengið bandaríska gerðarviðurkenningu.
Mengunin
En það var ekki bara öryggið sem Volvo menn voru að fást við á þessum tíma heldur líka mengunin. Mikil vinna var lögð í það að þróa búnað til að ná stjórn á mengun frá útblæstrinum með efnahvörfum og með því að ná stjórn á þeim. Áherslan var á að draga sem mest úr losun eitraðra efna eins og vetnis og kolefnissambanda (HC) og kolmónoxíðs (CO) og níturoxíða (NOX). Segja má að þetta starf hafi verið upphafið að þeirri þróun sem í dag sýnir sig í bílvélum sem menga einungis lítið brot af því sem vélar gerðu á áttunda áratuginum og eyða helmingi minna eldsneyti á hvert hestafl en þá.
Segja má að tímamót hafi orðið í þessum málum árið 1976 þegar svokallaður lambda skynjari kom fyrst fram í Volvo 240 bílum. Með honum og búnaði sem vann úr skilaboðum lamda-skynjarans tókst að ná þeim tökum á blöndun lofts og bensíngufu inn í vélina auk endurbætts hvarfabúnaðar til að hreinsa útblásturinn, að útblástur HC, CO og NOX sambandanna minnkaði um meir en 90 prósent. Þegar svo Kaliforníuríki setti árið eftir sín ströngu útblástursviðmið fyrir bíla – þau ströngustu í heiminum, þá hafði Volvo tekist með lambda skynjurum, loftflæðiskynjurum, þrívirkum efnahvarfa og tölvustjórn að koma hinni skaðlegu útblástursmengun talsvert niður fyrir þau mörk. Fyrir þennan árangur heiðraði ríkisstjórn Carters Bandaríkjaforseta Volvo.
Forystubíll
Volvo 240 var alla sína tíð nokkurskonar forystubíll og fyrirmynd alþjóðlegs bílaiðnaðar í öryggis- og umhverfismálum. Allan þann tíma sem hann var framleiddur voru gerðar á honum endurbætur, það er að segja á innviðum hans. Útlitið var hins vegar að mestu hið sama alla tíð. Endurbæturnar sem gerðar voru í tímans rás skiluðu stöðugt betri aksturseiginleikum, afli og orkunýtni og sú lífseiga fullyrðing að Volvo 240 væri þungur í akstri og svifaseinn og eiginlega hálfgerður traktor átti eiginlega aldrei við rök að styðjast.
Sá sem þetta ritar kynntist 240 bílum mjög vel í tengslum við umfangsmiklar jarðfræðirannsóknir um alla Evrópu á áttunda og níunda áratuginum sem kröfðust mikils aksturs um álfuna þvera og endilanga á allskonar vegum. Minnisstæð er ökuferð við annan mann frá Kirkenes í Norður Noregi til Hannover í Þýskalandi í nánast einni lotu. Á þýsku hraðbrautunum hélt bíllinn auðveldlega 200 + km hraða langtímum saman. Síðar í sömu ferð fannst hversu ótrúlega lipur hann var í þungri umferð og þrengslum ítölsku og frönsku borganna við strendur Miðjarðarhafs.
En allt á sitt upphaf og sinn endi og þann 5. maí 1993 hætti framleiðslan á Volvo 240. Síðustu mánuðina var hann einungis framleiddur sem langbakur. En þegar slökkt var á færibandinu höfðu samtals 2.862.573 bílar verið byggðir. Þar af voru 177.402 af 260 gerðinni (með sex strokka vélum). Síðasta 240 bílinn afhenti þáverandi forstjóri Volvo, Pehr G Gyllenhammar eigandanum, sænskri konu, við endann á færibandi 2: 4-2 í verksmiðju Volvo í Gautaborg undir borða sem á stóð – síðasti 240 bíllinn og sá besti.