24 þúsund manns hafa mótmælt vegatollum
Undirskriftir gegn vegatollahugmyndinni nálgast nú 24 þúsund þegar klukkan er 9.00 á miðvikudagsmorgni.
Undirskriftasöfnun FÍB gegn vegatollum í ofanálag við ofurháa og nýhækkaða skatta á bifreiðanotkun hófst síðdegis á mánudag hér á heimasíðu FÍB. Skemmst er frá að segja að viðbrögðin hafa verið ótrúleg. Þau staðfesta eftirminnilega á hversu miklum villigötum stjórnvöld eru í þessu máli og í hversu mikilli andstöðu þau eru við vilja almennings. Geta stjórnvöld haldið vegatollamálinu til streitu gegn svona gríðarlegri andstöðu almennings? Varla?
Undirskriftasöfnunin mun standa í viku og lýkur henni kl. 12.00 á hádegi næstkomandi þriðjudag, 11. janúar.
FÍB hvetur sem flesta til að undirrita mótmælin. Því fleiri sem við verðum, þeim mun skýrari verða skilaboðin til stjórnvalda og að sama skapi erfiðara fyrir stjórnvöld að sniðganga þau.