2450 km íslenskra vega hafa verið EuroRAP-skoðaðir
Undanfarin ár hefur FÍB rannsakað gæði íslenskra vega undir merkjum EuroRap. Með því er gert gæðamat, samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, á íslenskum vegum með tilliti til öryggis og er vegunum gefnar allt að fjórar stjörnur eftir gæðum. Umferðarstofa hefur annast fjármögnun þessa verkefnis fyrir hönd samgönguráðuneytisins en Félag íslenskra bifreiðaeigenda FÍB sér um framkvæmd þess hér á landi.
Nú liggja fyrir niðurstöður rannsóknar á samtals 2.450km af íslenska þjóvegakerfinu og kemur þar margt áhugavert í ljós:
1. Á 720 af 2.450km er of hátt fall eða of mikill bratti til hliðar við veginn.
2. Breidd vegar er víðast hvar of lítil og má nefna sem dæmi að á 1.106 af 2.450 km er slitlagsbreidd undir 6 metrum en samkvæmt stöðlum EuroRap dregur svo mjór vegur gæði og öryggi vegarins töluvert niður.
3. Víða er hægt að auka öryggi vegfarenda á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt með því að fjarlægja grjót og aðrar fyrirstöður í nágrenni vega, slétta úr, fylla upp í skurði o.s.frv.
4. Hægt er að auka öryggi vega töluvert með því að setja upp ljósa- og skiltastaura sem brotna auðveldlega við árekstur.
5. Tvöfaldur kafli Reykjanesbrautar fær 3 stjörnur af 4 mögulegum í athugun EuroRap. Að mati EuroRap fengi brautin 4 stjörnur ef sett yrðu upp vegrið til sitt hvorrar hliðar brautarinnar og á milli akbrauta, jafnvel þótt leyfður hámarkshraði yrði aukinn um 20 km.
Það skal tekið fram að víða er verið að vinna í úrbótum á vegum landsins. Sem dæmi má nefna að Vegagerðin hefur undan farin ár unnið að uppsetningu vegriða og víða lagfært þau sem fyrir eru.
Markmið EuroRap eru fimm stjörnu bílar á fimm stjörnu vegum en fyrirhugað er að hækka stjörnugjöf vega úr fjórum stjörnum upp í fimm innan skamms. EuroRap öryggisflokkunin er mikilvægt tæki fyrir vegahönnuði, m.a. til að mæla áhættu og bera saman öryggi mismunandi vega. Um er að ræða óháð gæðaeftirlit á vegum en verkefnið er þó unnið í náinni samvinnu við yfirvöld og veghaldara á hverjum stað. Með þessu fæst jafnframt marktækur samanburður á íslenskum vegum við vegi annarstaðar í heiminum.
Á undanförnum árum hafa sjónir manna beinst mun meir að mikilvægi þess að vegir og umhverfi þeirra þyrmi þeim sem lenda í umferðaróhappi. Þá er átt við að ef óhapp á sér stað að þá sé hönnun vegar og nánasta umhverfi hans þannig að sem minnstar líkur séu á líkamstjóni.
Í skýrslu EuroRap kemur fram að í Svíþjóð sem er með eitt öruggasta vegakerfi í heiminum er litið svo á að með endurbótum og auknum gæðum vegakerfisins megi fækka slysum um tæp 60% á meðan breytt hegðun ökumanna geti aðeins stuðlað að 15% fækkun slysa. Af þessu má ljóst vera hve miklu máli skiptir að samgöngumannvirki og umhverfi þeirra séu sem öruggust og uppfylli þær kröfur sem EuroRap gerir til fjögurra stjörnu vega. Ekki má þó gleyma því að öryggi vegfarenda grundvallast af því að ökumaður hagi akstri sínum samkvæmt aðstæðum hverju sinni.
Betri vegir bjarga mannslífum
Slagorðið „betri vegir bjarga mannslífum” hæfir þ.a.l. vel því átaki sem nú hefur verið hrint í framkvæmd. Á grundvelli EuroRap gefst kostur á fyrirbyggjandi aðgerðum til fækkunar hættulegra vega – áður en slysin eiga sér stað. Ef lagðar eru saman slysatölur og gæðaúttekt EuroRap á þeim vegum sem hafa verið rannsakaðir kemur í ljós að slysatíðni virðist hærri á einna stjörnu vegum en fjögurra stjörnu vegum.
Í Bretlandi hefur skapast samkeppni milli sveitarfélaga um hvert sé með bestu vegina. Við mat á því er m.a. litið til einkunnagjafar EuroRap á vegunum og í mörgum tilfellum hefur þurft að gera smávægilegar lagfæringar á eða við vegi, til þess að hækka einkunn þeirra um að minnsta kosti eina stjörnu. Á þremur árum hefur þriggja stjörnu vegum nánast verið útrýmt úr bresku vegakerfi. Í ljós hefur komið að hér á landi þarf oft að kosta litlu til að færa gæði vega upp um eina stjörnu.