2,5 lítrar á hundraðið
Reuters fréttastofan greinir frá því í morgun að Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna hafi metið orkueyðslu Nissan Leaf rafbílsins til bensíneyðslu. Niðurstaðan er sú að eyðsla hans jafngildi 2,5 lítrum af bensíni á hverja 100 km í blönduðum akstri í þéttbýli og á vegum úti.
Þessi niðurstaða bandarísku umhverfisverndarstofnunarinnar EPA er hluti af opinberri gerðarviðurkenningu nýrra bíla í Bandaríkjunum. Sú orkueyðsla bíla sem stofnunin mælir er síðan prentuð á límmiða sem skylt er að setja í framrúðu nýrra bíla svo neytendur geti séð hversu mikið eða lítið umhverfismildur nýi bíllinn er, sem neytandinn hefur hug á að eignast.
Í rauninni eru útreiknaðar eyðslutölur EPA einskonar mælikvarði á það hversu mikið CO2 bíllinn gefur frá sér á hvern kílómetra og er í þessum útreikningum gert ráð fyrir því hvernig rafmagnið sem knýr bílinn áfram er búið til. Rafmagn er framleitt með ýmsu móti; með kjarnorku, með því að brenna jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi, með fallvatnaorku, vind- eða sólarorku o.s.frv. Af þessum sökum eru þessir útreikningar ekki eins allsstaðar, t,d, er lítilsháttar mismunur á reikniaðferðum EPA og þeirra opinberu stofnana í Kaliforníu sem líka meta þessa hluti.
Nissan Leaf rafmagnsbíllinn er einn allmargra hreinna rafbíla og rafbíla með rafstöð sem eru að koma á almennan bílamarkað í Bandaríkjunum á næstunni. Nissan Leaf er sá fyrsti þessara bíla til að fá orkunotkunarmat frá EPA.
General Motors byrjar að afhenda fyrstu Chevrolet Volt bílana í næsta mánuði og rafmagnsútgáfa Ford Focus er væntanleg í söluumboð Ford í Bandaríkjunum á síðari hluta næsta árs. Byrjað verður að afhenda kaupendum Nissan Leaf, bíla þeirra í næsta mánuði og eru kaupendur í Kaliforníu, Oregon, Washington, Arizona og Tennessee fyrstir í röðinni. Eftir áramótin fá síðan kaupendur í Texas og á Hawaii sína bíla og síðan kaupendur í öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Eftirspurn eftir Nissan Leaf er mikil og eru allir þegar framleiddir bílar seldir fyrirfram og biðlistar orðnir til fram eftir næsta ári.