2.600 km á einum lítra af gasi
Shell Eco-maraþonið, sparaksturshátíð og -keppni háskólanema í Evrópu sem haldin hefur verið árlega undanfarna þrjá áratugi, fór fram í London um síðustu helgi. 230 keppnislið háskólanema frá 29 löndum tóku þátt á heimasmíðuðum ökutækjum og franska liðið Microjoule-La Joliverie bar heildarsigur úr býtum með því að komast 2.600 km á einum lítra af CNG gasi. Keppt var hins vegar í mörgum aksturs- og farartækjaflokkum þannig að í sjálfu sér unnust margir og margskonar sigrar.
Hin heimasmíðuðu farartæki voru af mörgu tagi og knúin af ýmist bensíni, dísilolíu, rafmagni, vetni, gasi og alkóhóli. Sjálf aksturskeppnin fór fram á lokaðri 2,2 km bæði krókóttri og hæðóttri braut og miðaðist að venju við það að komast sem allra lengst á hverri orkueiningu innan tiltekinna tímamarka. Það farartæki og ökumaður sem lengst náði var franskt, frá Lycee Saint-Joseph La Joliverie og eyddi sem svaraði einum lítra af jarðgasi (CNG gasi) á 2.600 kílómetra vegalengd. Myndin er af sigurbílnum.
Orkunýtnustu rafmagns- og vetnis-raffarartækin komust í kring um 740 km á kílóWattstund. Til samanburðar þá komast rafbílar eins og Nissan Leaf o.fl um það bil 5-7 km á kílóWattstundinni. Í flokknum „venjulegir“ bílar (eða því sem næst) komust vinningsliðin í hverjum flokki 249-450 km á hverjum reiknuðum bensínlítra.