270 hestafla Peugeot 308 R
Peugeot í Frakklandi sýnir á Frankfurtbílasýningunni frumgerð nýrrar ofurgerðar fjölskylduvagnsins 308. Hann nefnist fullu nafn Peugeot 308 R og er 270 hestafla sem er ærið í ekki stærri bíl.
Vélin er fjögurra strokka túrbínuvél og er sprengirými hennar einungis 1,6 lítrar. Hestöflin 270 koma öll fram við sex þúsund snúninga á mínútu. Vinnslan eða togið er mest 330 Newtonmetrar á snúningsbilinu 1.900-5.500. Allt þetta afl og tog skilast síðan til framhjólanna í gegn um sex gíra handskiptan gírkassa.
Miðað við venjulegan Peugeot 308 er yfirbyggingin sérstaklega styrkt til að standast átök öflugrar vélar og hranalegs aksturs. Fjöðrunin er ennfremur sérstaklega hönnuð til slíks. Hún er slagstutt og stíf, sporvíddin er meiri en venjulegu gerðarinnar og veghæðin er jafnframt lægri. Ennfremur eru stuðarar, hurðar, frambretti og húdd úr koltrefjaplötum en ekki járni og felgurnar eru 19 tommu með lághliða hraðaksturshjólbörðum.