28 landsþing FÍB sl. laugardag
28. landsþing FÍB var haldið á Grand Hótel í Reykjavík sl. laugardag. Á myndinni sést Steinþór Jónsson formaður FÍB ávarpa landsþingsfulltrúa. Landsþing félagsins eru haldin annað hvert ár og er hlutverk þeirra að móta stefnu félagsins og endurskoða í takti við breyttar aðstæður.
FÍB er ein stærstu frjálsu félagasamtök á Íslandi. Félagið er sjálfstætt og óháð einstaklingum, fyrirtækjum, samtökum og stjórnvöldum og þarf ekki að standa neinum reikningsskil gerða sinna og orða öðrum en félagsmönnum sínum. Landsþingsfulltrúar töldu mikilvægt að viðhalda áfram þessu sjálfstæði félagsins og þar með trúverðugleika þess sem málsvara íslenskra bifreiðaeigenda. Það væri ekki síst nauðsynlegt nú þegar illa árar í efnahagsmálum landsmanna og margir vilja seilast í vasa hins almenna bifreiðaeiganda.
Landsþingsfulltrúar töldu bæði mikilvægt og nauðsynlegt að efla starf félagsins við að gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart bæði ríkisvaldi og seljendum hverskonar þjónustu við bifreiðaeigendur. Þörfin hafi stöðugt verið að aukast fyrir öflugt neytendastarf og hagsmunagæslu. Stöðugt þurfi að gæta að réttindum bifreiðaeigenda sem neytenda og veita jafnframt stjórnvöldum aðhald varðandi skattaumhverfi, neytendalög, kaupalög, umferðarlög og allt sem lýtur að því lagaumhverfi sem seljendur vöru og þjónustu búa við.
Landsþingið ályktaði um þessi mál og fer hluti ályktana þingsins hér á eftir:
Ólafur Kr. Guðmundsson og Árni Sigfússon á landsþingi FÍB. |
Ályktun um umferðaröryggi
Landsþing FÍB haldið 28. nóvember 2009 fagnar þeim árangri sem náðst hefur í því að fækka slysum í umferðinni. Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir sinn mikilvæga þátt í þessu sem er m.a. fólginn í stuðningi við EuroRAP vegrýni FÍB og frumkvæði að mikilvægum endurbótum í vegakerfinu til að draga úr slysahættu.
En jafnframt varar Landsþing FÍB við því að dregið verði úr fjárveitingum til umferðarslysavarna. Slíkur sparnaður yrði dýrkeyptur því að slysin eru samfélaginu mjög kostnaðarsöm og hvert einstakt alvarlegt umferðarslys getur auðveldlega kostað tugi og jafnvel hundruð milljóna króna auk þeirra líkamlegu og andlegu þjáninga sem eru fylgifiskur slysanna.
Landsþing FÍB haldið 28. nóvember 2009 hvetur stjórnvöld til að halda áfram á sömu braut, því að fækkun umferðarslysa er árangursríkasta sparnaðarleiðin sem hægt er að hugsa sér.
Um aukna skattheimtu á bílaeigendur
1. Landsþing FÍB haldið 28. nóvember 2009 mótmælir eindregið hugmyndum um innheimtu veggjalda á helstu þjóðvegum til og frá höfuðborgarsvæðinu sem og annarsstaðar í vegakerfi landsins.
Samfélagsleg sátt hefur ríkt um það í áratugi að innheimta fé til endurbóta og nýframkvæmda í vegakerfinu með gjöldum á eldsneyti, enda þótt ekki hafi alltaf verið sátt um hversu há þessi gjaldtaka skuli vera.
Innheimta veggjalda í ofanálag við þau ofurháu og hækkandi gjöld sem lögð eru á eigendur og notendur bifreiða eru hrein ósvinna og ættu ekki, að mati FÍB að koma til greina. Landsþing FÍB hvetur stjórnvöld til að leggja öll áform af þessu tagi á hilluna þegar í stað.
2. Landsþing FÍB haldið 28. nóvember 2009 mótmælir stórhækkuðum álögum á bifreiðar og bifreiðanotkun að undanförnu. Hin stóraukna skattbyrði mun að mati landsþings FÍB tefja fyrir efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar því að hún rýrir möguleika fjölda fólks til að sækja vinnu um lengri eða skemmri veg, hún dregur úr hreyfanleika vinnuafls og þjónustu og bitnar ekki síst á íbúum hinna dreifðu byggða landsins.
3. Landsþing FÍB haldið 28. nóvember 2009 mótmælir hinum fyrirhugaða „kolefnisskatti“ sem á samkvæmt fjárlagafrumvarpi að leggjast á bifreiðaeigendur af fulllum þunga um næstu áramót. Þessi fyrirhugaði skattur hefur þegar grannt er skoðað, enga tengingu við umhverfisvernd og er því í raun alls ekki kolefnisskattur. „Kolefnisskatts- nafngiftinni er greinilega ætlað að sætta almenning við skattheimtuna sem hefur ekki annan tilgang en þann að auka tekjur ríkissjóðs og stoppa í fjárlagagat.
Um uppgjör fjármögnunarfyrirtækja við lántakendur
Reglugerð viðskiptaráðherra frá því fyrr á þessu ári hefur takmarkað þann kostnað se fjármögnunarfyrirtækjum er heimilt að setja undir hatt „lögfræðikostnaðar“ í innheimtu sinni. FÍB hafa borist sterkar vísbendingar og heimildir um að í einhverjum tilvikum hafi neytendum verið gert að greiða langt yfir 100 þúsund krónur í lögfræðikostnað eftir að fyrrnefnd reglugerð tók gildi. Að baki þeirri innheimtu virðist ekki hafa staðið annað en þrjú til fjögur stöðluð innheimtubréf og er ekki að sjá að um nein lagaleg álitaefni hafi verið að ræða, heldur fremur um staðlaða innheimtu.
FÍB skorar á fjármögnunarfyrirtæki að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum og eftir atvikum að endurgreiða neytendum gjöld sem beinlínis ólögmætt hefur verið að innheimta. FÍB hefur beint erindi af þessu tilefni til Neytendastofu sem eftirlit hefur með því að eftir reglugerð viðskiptaráðherra sé farið.