3.000 deyja daglega í umferðinni
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra setur umferðarviku SÞ sem hófst fyrir stundu.
Meir en 3.000 manneskjur deyja í umferðarslysum í heiminum á hverjum einasta degi. Til að draga úr þessum hörmungum dugar ekkert nema það eitt að þjóðir heims taki höndum saman. Nú er það að gerast að frumkvæði FIA-alþjóðasamtaka bifreiðaeigenda og Max Mosley forseta þeirra og í dag er fyrsti dagur alþjóðlegrar umferðarviku Sameinuðu þjóðanna. Bílaklúbbarnir innan FIA taka virkan þátt í umferðarvikunni og beina athyglinni að vegunum undir kjörorðunum „Make roads safe“ eða -Gerum vegina örugga.
Hér á landi hófst alþjóðlega umferðarvikan formlega fyrir hádegið með á fréttamannafundi í Forvarnahúsinu og setti Sturla Böðvarsson samgönguráherra vikuna. Hann sagði meðal annars að hér á landi þyrfti nauðsynlega að byggjast upp umferðaröryggismenning. „Við verðum að ná árangri í umferðaröryggismálum,“ sagði ráðherra og í þeim efnum væri nú verið að stilla saman strengi á mörgum vígstöðvum, m.a. með sýnilegri og öflugri löggæslu, endurbótum í vegakerfinu t.d. á þekktum slysastöðum – svokölluðum svartblettum - og stóraukinni umferðarfræðslu ekki síst innan skólakerfisins allt frá leikskólum til framhaldsskóla. Í tilefni umferðarviku SÞ hefur Umferðarstofa svo opnað sérstaka heimasíðu. Þar er að finna dagskrá hennar, tengla inn á erlendar heimasíður og fleiri upplýsingar tengdar málefninu.
Síðasta ár var eitt það versta í sögu umferðarslysa á Íslandi. Sem betur fer hefur árið í ár farið betur af stað. Á heimsvísu er ástandið þannig að sjöttu hverja sekúndu lætur manneskja lífið í umferðarslysi og af þeim þremur þúsundum sem látast daglega eru 500 börn. Ástandið er almennt séð langsamlega verst í fátækari hlutum heimsins og telja fræðimenn að barátta gegn fátækt þar sé vonlaus nema með því að takist að draga stórlega úr þessum hamförum. Forseti FIA og FIA Foundation hafa lengi gagnrýnt meint áhuga- og afskiptaleysi stjórnmálamanna og fjölmiðla á umferðarslysavánni og kallað eftir aukinni athygli og afskiptum og nú virðist sem viðhorfsbreyting sé að verða. Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið málið á dagskrá ef svo má segja, og umferðarslysaváin verður á dagskrá á næsta leiðtogafundi G8 ríkjanna í Þýskalandi
„Sérhvert dauðaslys í umferðinni er einu of mikið. Tilgangur átaksins „Make Roads Safe“ er sá að vekja stjórnmálamenn og fjölmiðla heimsins til vitundar um að það verður að láta verkin tala ef takast á að draga úr þessari vá,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB.
Megináhersla heimsátaksins Make Roads Safe er á það að gera sjálfa vegina öruggari. Hér á landi hefur megináherslan lengstum verið á ökumanninn sjálfan og ábyrgð hans en í seinni tíð hefur athyglin einnig beinst að sjálfum vegunum og umferðarmannvirkjum. Er eitthvað á vegunum sjálfum eða í nánasta umhverfi þeirra sem valdið getur slysum eða gert afleiðingar mistaka ökumanna verri en ella?
Eitt af meginmarkmiðum FÍB er örugg umferð og félagið hefur undanfarin ár rannsakað og metið íslenska vegi með tilliti til öryggis þeirra undir merkjum EuroRAP og mun halda því áfram af auknu afli á næstunni. Til viðbótar við þjáningar og persónulega harmleiki sem umferðarslys valda fórnarlömbum og aðstandendum þeirra eru þau samfélaginu öllu mjög dýr í beinhörðum peningum talið. Þau kosta Íslendinga árlega 21-29 milljarða króna og því er ávinningur að því að fækka þeim augljós.
Á heimsvísu eru umferðarslysin líkust faraldri og tíðni þeirra á borð við sjúkdóma eins og lungnakrabba og bronkítis. Slys í umferðinni eru í hópi tíu algengustu dánarorsaka í heiminum. Alls farast árlega um 1,2 milljónir manna í umferðarslysum og 50 milljónir slasast. Flest verða slysin í meðaltekjuríkjunum og í Evrópu og Bandaríkjunum eru umferðarslys algengasta dánarorsök ungs fólks. Á heimsvísu eru þau sú næst algengasta á eftir eyðni-/alnæmissjúkdómnum.
Þessvegna er þörfin fyrir herta baráttu gegn umferðarslysavánni augljós og við hjá FÍB viljum hvetja alla til að kynna sér málið og undirrita stuðningsyfirlýsingu á heimasíðu átaksins Make Roads Safe. Umferðaröryggismál verða á dagskrá Allsherjarþings SÞ í nóvember nk. og verða undirskriftirnar af heimasíðu Make Roads Safe afhentar aðalritara Sameinuðu þjóðanna áður en umræður hefjast.
Bílaeign í meðal- og lágtekjulöndum fer nú ört vaxandi og samkvæmt spám mun dauðaslysum í fátækustu ríkjunum fjölga um 80% fram til ársins 2020 verði ekkert að gert. Það myndi þýða að markmið um útrýmingu fátæktar munu ekki nást.