32 m langir flutningabílar
Þeir sem ekið hafa um Svíþjóð hafa efalaust tekið eftir því hversu langir sumir vöruflutningabílanir eru – lengri en víðast hvar annarsstaðar í Evrópu. En nú eru Svíar að bæta um betur og prófa sig áfram með vagnlestir sem samtals eru 32 metrar að lengd, þ.e.a.s. dráttarbíll með viðfestum mjög löngum festivagni og aftan í honum mjög langur tengivagn. Á Íslandi er hámarkslengdin 18,75 m.
Tilraunin með þessi ofurlöngu flutningatæki nefnist Projekt Duo2 og fer hún fram í samvinnu fyrirtækja fræðimanna, atvinnulífs og hins opinbera. 32 metra bílaflutningalestirnar eru prófaðar á nóttunni á vegi E6 milli Gautaborgar og Malmö og fyrstu niðurstöður eru mjög jákvæðar. Aðalástæðan fyrir næturakstrinum er einkum sú að þá er umferð á veginum mun minni en á daginn og allar mælingar, m.a. á eldsneytiseyðslu eru auðveldari. Það sem menn sækjast eftir með því að lengja bílaflutningalestina er að mæta vaxandi þörf fyrir flutningsrými án þess að þurfa að fjölga flutningabílunum á vegunum. Fjölgun flutningabíla hefur í för með sér aukinn CO2 útblástur, fleiri flutningatæki á vegunum auka á þrengslin sem aftur kallar á dýrari endurbætur á vegunum en ella. Með því að lengja vagnalestirnar er hægt að flytja meiri varning með færri bílum. Volvo vörubílaverksmiðjan er aðili að þessum tilraunum og kynningarfulltrúi fyrirtækisins segir við Motormagasinet í Svíþjóð að fyrstu niðurstöður verkefnisins bendi til þess að draga megi úr CO2 losun frá bílaflutningum um 15-30 prósent og miðað við hefðbundnar 18,75 metra langar vagnlestir Evrópusambandsins sé flutningsrýmið helmingi stærra.