39,1% samdráttur í nýskráningum bíla
Nýskráningar ökutækja á fyrstu 340 dögum ársins eru 39,1 prósenti færri en á sama tíma í fyrra. Í ár áttu sér stað samtals 17.405 nýskráningar en í voru í fyrra 28.595. Þetta kemur fram í frétt frá Umferðarstofu.
Eigendaskipti ökutækja á sama tímabili þessa árs eru 79.322 en þau voru 100.270 eftir jafn marga skráningardaga á síðasta ári. Hlutfallsleg lækkun eigendaskipta nemur því 20,9% milli ára.
Í fyrstu vinnuviku desembermánaðar á þessu ári voru skráð 32 ökutæki en á sama tímabili í fyrra voru þau 471. Þetta er aðeins 6,8% þess fjölda sem var nýskráður á sama tíma í fyrra.
Í fréttabréfi Umferðarstofu má sjá yfirlit yfir nýskráningar ökutækja og eigendaskipti á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 5. desember 2008. Þar er einnig athyglisverður samanburður á nýskráningu ökutækja fyrstu 5 virka daga desember mánaðar nú í ár borið saman við í fyrra. Hafa skal í huga að hér er um að ræða nýskráningu og eigendaskipti allra ökutækja ekki bara bifreiða.