3ja ára bandarískir og franskir bílar slakastir
Þegar sænska bifreiðaskoðunin skoðar þriggja ára gamla fólksbíla kemur í ljós að bandarískir og franskir bílar fá flestar athugasemdirnar. Volvo S40, Mazda 3 og Toyota Avensis fá fæstar. Sjá nánar í frétt Bilprovningen.
En þótt Volvo S40 sé meðal þeirra bestu þá gildir ekki hið sama um Volvo XC90 því að hann fær næst flestar athugasemdir. Verstur er Chrysler Voyager en athugasemdir eru gerðar verið 12,7% bensínbílanna og 26,3% hinna dísilknúnu.
Aðrir en þeir þrír bestu sem nefndir hafa verið hér að framan eru VW Golf, Skoda Octavia og BMW 3 línan. Meðal þeirra sem raða sér á botninn með Voyager og Volvo XC90 eru Hyundai Santa Fe, Renault Mégane, Renault Espace og eldri kynslóðin af Mercedes C-línunni.
Eftir fyrstu þrjú árin þegar bílarnir eru ársskoðaðir í fyrsta sinn hefur þeim verið ekið mis mikið, eða frá tæplega 24 þúsund kílómetrum upp í 105 þús. km. Þeir bílar sem mest eru eknir og fæstar athuasemdir fá þrátt fyrir það eru t.d. Audi A6, Volkswagen Passat og Skoda Octavia. Meðal ársakstur bíla í fyrstu skoðun er rúmlega 9 þúsund km.
Það er enn sem fyrr slit í stýrisliðum (spindlum og stýrisendum) sem oftast er ástæða athugasemdanna, þótt vissulega hafi verulega dregið úr slíku miðað við það sem var áður. Enn eru þó nokkrar tegundir og gerðir bíla sem enn eru hrjáðar þessum sjúkdómum, þar á meðal eru Chrysler Voyager og Renault Espace.