3ja strokka hátækni í Opel Adam

Smábílinn Opel Adam verður á nýju ári fáanlegur með glænýjum þriggja strokka bensínmótor sem sagður er munu hækka talsvert þau viðmið sem hingað til hafa þótt gilda um litlar og sparneytnar bensínvélar. Þessi nýja bensínvél er afsprengi þeirrar þróunarvinnu sem farið hefur fram um nokkurt skeið á bensínvélum í því skyni að auka orkunýtingu þeirra og minnka mengandi útblástur. Samskonar vinna fór fram á dísilvélum með afbragðs árangri fyrir allnokkrum árum og nú er röðin komin að bensínvélunum.

Þessi nýja þriggja strokka vél nefnist 1.0 SIDI Turbo. Hún er sögð sérlega þýðgeng samanborið við þriggja strokka vélar yfirleitt og ekki bara mjög sparneytin og umhverfismild, heldur líka svo laus við titring og hávaða að margar fjögurra strokka vélar standist henni ekki snúning.

Afl þessarar þúsund rúmsm vélar er  85 kW/115 hö. og vinnslan hvorki meira né minna en 166 Newtonmetrar á snúningshraðabilinu 1.800-4.700 sn./mín. Það verður því lítt hægt að kvarta undan hröðun bílsins á lágum snúningshraða . Hún verður einfaldlega meiri en hjá flestum öðrum  bensínvélum þótt talsvert stærri séu að rúmtaki. En jafnframt er bensíneyðslan sögð verulega minni og CO2 útblástur sömuleiðis. Til samanburðar þá eru afköst 1,6 l bensínvélarinnar sem nú er algengust í Opelbílum þannig að hestöflin eru jafnmörg en vinnsla þeirrar nýju er 30 prósent meiri og bensíneyðslan 20 prósent minni.

Árangurinn er m.a. rakinn til nýrrar háþrýstrar beinnar strokkinsprautunar eldsneytisins, nýs túrbínukerfis og ventlakerfis með breytilegum opnunartíma. Það síðastnefnda þýðir það að ventlarnir opnast ekki og lokast í beinum takti við snúning vélarinnar, heldur á heppilegasta augnabliki hvað varðar bruna eldsneytisin í vélinni.

Þessi nýja vél er sú fyrsta af nýjum þriggja og fjögurra strokka vélum sem væntanlegar eru í Opel bílum nánustu framtíðar. Við hana í Opel Adam bílnum verður nýr sex gíra gírkassi. Með honum og start/stopp búnaði verður áætlaður útblástur CO2 á ekinn kílómetra vel undir 100 grömmum á ekinn kílómetra.