40 ára saga ralls á Íslandi í kvikmynd
Sl. laugardag, þann 10. des. var frumsýnd í Bíó Paradís við Hverfisgötu í Reykjavík heimildamynd um 40 ára sögu rallsins á Íslandi eftir Braga Þórðarson. Í myndinni er rakin sagan allt frá fyrsta rallinu á Íslandi í myndum og máli.
Þessi fyrsta rallkeppnin á Íslandi fór fram á hvítasunnudag árið 1975 að frumkvæði FÍB sem skipulagði keppnina og stóð að henni á allan hátt. Bæði skipuleggjendur og keppendur sem enn eru á lífi minnast enn erfiðleikanna við að koma keppninni í kring vegna andúðar margra, ekki síst opinberra aðila. En almenningur og fjölmiðlar tóku henni fagnandi og fylgdust með henni í þaula meðan hún stóð yfir. Ómar Ragnarsson sem þátt tók í keppninni með Jón bróður sinn sem leiðsöguökumann á Fiat 127 árgerð 1974. Ómar sagði í samtali við FÍB-fréttir að sér sé þessi keppni mjög minnisstæð. Hún varð loks að veruleika eftir margra ára baráttu við yfirvöld og skriffinna þeirra sem voru bara á móti akstursíþróttum. Þeir hefðu loks látið undan með þeim skilyrðum að aldrei yrði ekið yfir lögbundinn hámarkshraða sem þá var 70 km á klst.
Í þeim rallviðburðum sem á eftir komu næstu mörg árin stóðu skriffinnar yfirvalda fast á þessari 70 km reglu en lokst tók að slakna á henni smám saman, fyrst þannig að hún varð að 70 km meðalhraða en að lokum lagðist hún af gagnvart akstri inni á harðlokuðum sérleiðum. Það gerðist þó ekki fyrr en hátt í áratug síðar. Ómar segiri að vegna 70 km reglunnar hefðu skipuleggjendur rallkeppni lengi neyðst til að leita uppi nógu erfiðar sérleiðir sem voru svo slæmar yfirferðar að nánast útilokað væri að komast yfir 70 á þeim nokkurs staðar. Þá minnist Ómar þess að yfirvöld, ekki síst einstök sýslumannsembætti, beittu mjög lögreglu gegn rallkeppendum sem hraðamældi þá í tíma og ótíma og sat fyrir þeim og stöðvaði af minnsta tilefni.
Erling Andersen bifvélavirki sem var einn öflugasti vegaþjónustumaður FÍB á sjöunda og áttunda áratuginum minntist fyrsta rallsins á Íslandi í viðtali í FÍB blaðinu: „Ég var einn af þeim sem skipulögðu rallið ásamt Bjarna Jónassyni rafvirkja. Við skipulögðum sérstakt talstöðvanet til að stjórnendur og starfsfólk gætu haft samband þar sem þá fyrirfundust engir farsímar. Á hverri sérleið voru hlið sem keppendur þurftu að fara í gegn um og þar voru þeir tímamældir út og inn og niðurstöður jafnharðan tilkynntar keppnisstjórn,“ sagði Erling. „Í hverju hliði þurfti að vera sérstakur bíll með talstöð svo samskipti milli starfsmanna og tímavarða væru sem skyldi og allar tímasetningar og tímatökur stæðust. Þetta var talsvert flókið og í rauninni hefði keppnin verið óframkvæmanleg án talstöðvanna. Skipulagsvinnan var verulega flókið verkefni og mig minnir að við höfum verið rúma viku að berjast í því dag og nótt að koma þessu heim og saman, fyrst að finna leiðirnar, tímasetja þær og skipuleggja keppnisaksturinn og öll samskiptin þannig að ekkert gæti farið úrskeiðis. Öll skilaboð þurftu að komast óbrengluð sína boðleið í hvelli, hversu löng sem hún annars var, segir Erling.
Þessi fyrsta rallkeppni var vissulega mikill viðburður sem vakti gríðarlega mikla athygli í samfélaginu og hlaut mikla og góða fjölmiðlaumfjöllun. En í alþjóðlegu „rall-samhengi“ var hún að sönnu ekki stór. Keppnislengdin var ekki nema rúmir 154 kílómetrar og keppni hófst og endaði við Hótel Loftleiðir við Reykjavíkurflugvöll að viðstöddum miklum fjölda fólks. 54 keppnisbílar hófu keppni. Tveggja manna áhöfn var í hverjum bíl þannig að keppendur voru 108. Það var Halldór E. Sigurðsson þáverandi samgönguráðherra sem ræsti fyrsta bílinn kl. 13.31. Aðeins ein kvenáhöfn tók þátt í keppninni. Það voru ökumaðurinn Guðrún Runólfsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir. Þær óku Toyota Corolla árgerð 1973