40 milljón Lambda-skynjarar á ári
Á dögunum taldist mönnum svo til hjá þýska íhlutaframleiðandanum Bosch, að fyrirtækið væri búið að framleiða 400 milljón lambdaskynjara fyrir bíla. Í dag framleiðir fyrirtækið árlega 40 milljón slíka skynjara fyrir stóran hluta bílaframleiðenda heimsins.
Þrír áratugir eru frá því að Bosch setti fyrst lambdaskynjara á markað. Það var í Ameríkuútgáfum Volvo 240/260 bíla í kjölfar hertra reglna í Bandaríkjunum um leyfileg mörk mengandi efna í útblæstri bíla. Lambdaskynjarar mæla í raun súrefni í útblæstri bílanna og þeir eru forsenda þess að hvarfakútar sem hreinsa útblásturinn virki fullkomlega rétt. Súrefnismagn í útblæstrinum er mælikvarði á það hversu vel eða illa vélin brennir eldsneytinu.
Lambdaskynjararnir eru settir í útblástursrör bíla. Þeir eru yfirleitt tveir í hverjum bíl, annar skynjarinn er settur fyrir framan hvarfakútinn en hinn aftan við hann. Þeir mæla síðan súrefnisinnihaldið jafnharðan og senda boð í stjórntölvu bílsins sem stillir af eldsneytisinnsprautunarkerfið og kveikitíma kveikjunnar eftir boðum frá lambdaskynjurunum til að fá sem hreinastan útblástur frá bílnum.
Lambdaskynjarinn var upphaflega gerður árið 1968 til þess að mæla súrefnisinnihald lofts við rafgeymaframleiðslu hjá Bosch. Þegar reglur um útblástur frá bílum komu fram upp úr 1970 og hvarfakútar komu fyrst í bandaríska bíla fengu verkfræðingar Bosch þá hugmynd að setja þá í púströr bíla til að geta stillt vélarnar og eldsneytisbrunann nákvæmar. Volvo varð í framhaldinu fyrsti bíllinn sem búinn var lambdaskynjara og tölvustýrðri innsprautun sem stillti sjálfvirkt eldsneytisbrunann. Þetta var 1976.
Útbreiðsla lambdaskynjara í þessum tilgangi breiddist síðan út og tíu árum síðar fögnuðu Bosch-menn þegar lambdaskynjari númer tíu milljón kom úr framleiðslu. Síðan hefur framleiðslan stöðugt aukist eftir því sem fleiri ríki hafa innleitt hertar útblástursreglur og 1993 var framleiðslutalan komin í 50 milljón stykki og nú er semsé talan komin í 400 milljónir enda er varla nokkur bensínknúin bílvél lengur framleidd án þess að í henni séu lambdaskynjarar. Síðan 2002 hafa lambdaskynjarar einnig verið settir í dísilvélar.